Fram kemur í Radarnum, fréttabréfi samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, að atvinnutekjur á mánuði í fiskeldi á Vestfjörðum fyrstu 9 mánuði ársins voru 1.004 þús kr. að jafnaði. Meðaltalið yfir allar atvinnugreinar á sama tíma er 736 þús kr. á mánuði. Atvinnutekjurnar í fiskeldinu eru því 36% hærri en meðaltalið. Þetta má sjá í tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur, en þær tölur eru birtar niður á landshluta og einstaka sveitarfélög.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að atvinnutekjur á mann í fiskeldi hafa verið töluvert hærri en að jafnaði í öllum atvinnugreinum samanlagt á undanförnum árum á Vestfjörðum. Aukin umsvif fiskeldisfyrirtækja hafa því vafalaust haft jákvæð áhrif á tekjur sveitarfélaga á Vestfjörðum, enda er útsvar einn helsti tekjustofn þeirra.
Til viðbótar má nefna að þriðjungur af fiskeldisgjaldinu, þ.e. auðlindagjaldinu sem sjókvíeldisfyrirtæki greiða, rennur í sjóð sem úthlutað er úr til að styrkja innviði sveitarfélaga og atvinnulíf á þeim svæðum þar sem fiskeldi í sjó er stundað. Í ár fengu fimm sveitarfélög á Vestfjörðum úthlutað samtals 246 milljónum króna úr sjóðnum í ýmis verkefni, eins og í nýjan grunn- og leikskóla á Bíldudal og verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði.
Fjöldi starfa hefur fjórfaldast – tekjur áttfaldast
Að jafnaði fengu um 280 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum á fyrstu níu mánuðum ársins á Vestfjörðum. Miðað við sama tímabil árið 2013 hefur fjöldinn fjórfaldast. Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar á Vestfjörðum, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu ríflega 2.500 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er átta sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2013.
Rúmlega 9% atvinnutekna má rekja til fiskeldis
Atvinnutekjur af fiskeldi nema rúmlega 9% sem hlutfall af heildaratvinnutekjum á svæðinu á fyrstu níu mánuðum ársins. Árið 2013 var hlutfallið innan við 2%. Sé hins vegar tekið mið af atvinnutekjum þess hluta sem Hagstofan nefnir viðskiptahagkerfið, en þar er t.d. hið opinbera undanskilið, þá vegur fiskeldið rúm 14%. Þetta hlutfall var rúm 2% árið 2013.