Athugasemd vegna fréttar um kosningaáherslur Vinstri grænna

Sigríður Gísladóttir.

Sigríður Gísladóttir, sem skipar 3. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi hefur óskað eftir birtingu á eftirfarandi athugasemd:

„Ég vil fá að leiðrétta þrennt hjá þér í frétt BB um kosningaáherslur Vinstri grænna sem kynntar voru um helgina.

Í fyrsta lagi er fyrirsögnin villandi því Vinstri græn eru ekki á móti laxeldi, sé það stundað með ábyrgum hætti, líkt og fjallað er um í áherslunum. Vandamál sjókvíaeldis, þ.e. fyrst og fremst lúsasmit og slysasleppingar eru deginum ljósari og hefur atvinnugreinin sjálf ekki dregið fjöður yfir það, hvorki hér heima né erlendis og því þarf að huga að því að leysa þessi vandamál með raunhæfum hætti. Leiðin til þess er að sjókvíaeldi í opnum sjókvíum verði fasað út og aðrar tæknilausnir taki við. Þær tæknilausnir eru í þróun og við munum njóta góðs af því og það er stefna VG að íslenskt sjókvíaeldi á laxi verði aðeins stundað með ábyrgum og sjálfbærum hætti. 

Í öðru lagi var ekki talað í kynningunni um fólk sem treystir á tekjur og atvinnu af sjóstangaveiði heldur stangveiði. Ég gef mér að þetta sé innsláttarvilla.

Í þriðja lagi er ákveðin mótsögn fólgin í því og hrapað að ályktunum að skrifa „tvær virkjanir Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun hafa verið samþykktar í rammaáætlun.“ og á sama tíma skrifa „Miðað við kosningaáherslurnar er flokkurinn andvígur bæði Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun þrátt fyrir samþykki Alþingis.“ 

Það er vert að minna á að það var Svandís Svavarsdóttir formaður VG sem mælti fyrir rammaáætlun í tíð sinni sem umhverfisráðherra og VG hefur litið á aðferðafræði rammaáætlunar sem rétta leið til að sætta sjónarmið, þó vissulega sé hún mannanna verk og þurfi að endurskoða reglulega.“

DEILA