Ekkert minna en bylting

Það er þyngra en tárum taki að ekki skuli enn hafa verið lokið við vegaframkvæmdir í Gufudalssveitinni né heldur á Dynjandisheiðinni. Samkvæmt gildandi samgönguáætlun átti að ljúka vegagerð og fjarðaþverunum í Gufudalssveit í fyrra og Dynjandisheiðinni nú í ár.

Núna undir árslok 2024 er staðan hins vegar sú að enn er ólokið við að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð í Gufudalssveitinni. Á Dynjandisheiðinni vantar herslumuninn; 7 kílómetrar eru enn óuppbyggðir og ómalbikaðir. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi og óþolandi. Brýnt er því að upplýst verði hvernig á því í standi að ekki hafi tekist að ljúka þessum framkvæmdum á réttum tíma, sem þó voru gefin fyrirheit um fyrir aðeins fjórum, fimm árum.

Voru fjármunir í Vestfjarðaveg fluttir eitthvað annað?

Erfitt er að hugsa til þess sem haldið hefur verið fram, að fjármunir til þessara framkvæmdum hafi verið fluttir annað og að það skýri tafir á verkunum. Þetta hefur á hinn bóginn verið staðhæft á opinberum vettvangi. Til dæmis ítrekað í fréttum Stöðvar 2 nú nýverið, án þess að því hafi verið mótmælt, að fjármunir sem Alþingi hafi ákveðið að ætti að fara í Dynjandisheiði og Gufudalssveit hafi verið fluttir í stórframkvæmdir við Hornafjarðarfljót. Þetta er óþægileg tilhugsun og algjörlega óhjákvæmilegt að samgönguyfirvöld, Vegagerðin og ráðuneyti samgöngumála bregðist við og skýri þau undanbragðalaust.

Hvenær verður verkið boðið út og hvenær verður því lokið?

Við lokaafgreiðslu fjárlaga nú á dögunum var farin sú leið að opna á möguleika Vegagerðarinnar til að bjóða tafarlaust út tiltekin samgönguverkefni, þar með talið vegagerðina í Gufudalssveitina og loka áfanga Dynjandisheiðar. Það er vissulega jákvætt í ljósi aðstæðna.  

Þá er að tvennu að huga og sem við hljótum að gera kröfu til; og ekki bara það. Neðangreint þarf að liggja fyrir áður en gengið er til kosninga:

  1. Að þessi tilgreindu verkefni verði boðin út jafn skjótt og það er tæknilega gerlegt og tilkynnt verði hið fyrsta um hvenær sé áformað að útboð verði auglýst.
  2. Að framkvæmdatíminn verði ekki áformaður lengri en nauðsynlegur sé af tæknilegum ástæðum.

Það er ekki eftir neinu að bíða og frekari tafir á þessari framkvæmd eru ekki í boði. Mjög mikilvægt er því að þetta tvennt liggi fyrir sem fyrst og tvímælalaust áður en kosið verður til Alþingis 30. nóvember nk. Færi vel á því að frá þessu væri greint í þessum góða fjölmiðli, BB.is sem hefur af miklum ötulleika talað fyrir hagsmunum Vestfirðinga upp á síðkastið.

Hér er mikið í húfi

Hér er mikið í húfi. Þessar vegabætur, sum sé í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði, eru af því tagi að jafna má til hreinnar byltingar í búsetuskilyrðum Vestfirðinga. Er þá ótalinn öryggisþátturinn, sem birtist okkur svo ljóslifandi á dögunum þegar þjóðleiðin til Vestfjarða um Ísafjarðardjúp tepptist við hina ægilegu vatnavexti.

Endurbætt þjóðleið til og frá Vestfjörðum hefur þegar opnað mikla möguleika. Gallinn er hins vegar sá að þeir nýtast ekki almennilega fyrr en verkefninu er lokið að fullu. Þess vegna er svo brýnt að allt sé gert til þess að ráðast í loka framkvæmdirnar strax. Þær hafa þegar tafist af óútskýrðum ástæðum og verður ekki til baka tekið. Því er það eina í stöðunni að vinda sér í útboðin á þessum fyrrgreindu tveimur áföngum og það eigi síðar en fyrir árslok.

Illa farið með fjármunina

Á yfirstandandi áratug hefur margt áunnist. Það sem á vantar er hins vegar herslumunurinn; að ljúka köflunum í Gufudalssveit og á Dynjandisheiði. Að sönnu hefur mjög munað um framkvæmdirnar síðustu árin. En sú milljarða fjárfesting í vegunum á umræddum svæðum gagnast ekki að fullu fyrr en verkefninu er lokið. Það má því með sanni segja að illa sé farið með fjármunina sem hafa verið lagðir í þessi verkefni á meðan ekki er hægt að nýta fjárfestinguna til hlítar.

Samantekt á styttingu á Vestfjarðavegi í tengslum við þrennar framkvæmdir

Til þess að varpa frekara og skýrara ljósi á þessi mál aflaði ég neðangreindra upplýsinga hjá Vegagerðinni:

  • Dýrafjarðargöng (opnuð 2020): stytting Vestfjarðavegar um 27,4 km
  • Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit: Heildarstytting Vestfjarðavegar milli Skálaness og Bjarkarlundar þegar öllum framkvæmdum er lokið er um 22 km. (Þar af Þorskafjörður um 10 km)
  • Vestfjarðavegur (60) um Dynjandisheiði: Stytting þegar framkvæmdum við alla þrjá áfanga er lokið er um 2 km
  • Samtals stytting í kjölfar þessara framkvæmda: 51,4 km.

Þetta er sannarlega mjög jákvætt og afar áhugavert. Hér er vert að vekja athygli á að inni í þessum tölum er sú stytting sem þá fyrst næst þegar lokið er við að brúa Gufufjörð og Djúpafjörð. Sú framkvæmd ein og sér styttir þjóðleiðina um 12 km.

Dæmi um áhrif vegabótanna

Þetta segir okkur hversu gríðarlegur ávinningur er af þessari styttingu. Skoðum það aðeins í samhengi:

  • Leiðin frá Reykjavík til Akureyrar er 388 km.
  • Leiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar um Austur og Vestur Barðastrandarsýslu er núna 414 km en verður 402 km þegar þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar er lokið. Sem sagt svipuð vegalengd og til Akureyrar frá Reykjavík.
  • Leiðin Reykjavík- Ísafjörður ef farið er um Þröskulda, Strandir, og Ísafjarðardjúp er 455 km.
  • Leiðin frá Reykjavík til Patreksfjarðar er núna 388 km, eða jafn löng og frá Reykjavík til Akureyrar. Með þverun ofangreindra fjarða verður vegalengdin 376 km, eða mun styttri en til Akureyrar.

Búsetuskilyrðin batna

Þessi samanburður segir mikla sögu. Í hugum margra er ferðalag til Vestfjarða frá helsta þéttbýli landsins nefnilega talsverður þröskuldur. Ekki gegnir sama máli um ferð norður til Akureyrar. Fólk talar um að skreppa norður til Akureyrar. En ferð vestur er af mörgum enn talin meiriháttar ferðalag. Með vegabótunum mun þetta allt breytast. En ekki bara það. Hið sama á auðvitað við um alla aðdrætti fólks og fyrirtækja, flutninga á framleiðsluvörum, svo sem frá sjávarútvegi og laxeldi og áfram má telja. Flutningskostnaður til og frá Vestfjörðum lækkar, auðveldara verður fyrir íbúa Vestfjarða og vestfirsk fyrirtæki að sækja og selja þjónustu af margvíslegum toga, nýir og áður óþekktir möguleikar opnast fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum og áfram má telja.

Sem sagt og í sem stystu máli. Búsetuskilyrðin batna. Það verður betra og eftirsóknarverðara að búa á Vestfjörðum. Og ætli það sé nú ekki kjarni málsins.

Verkið verði unnið svo hratt sem tæknilega er mögulegt

Af þessum ástæðum og fjöldamörgum öðrum er því mjög brýnt að ljúka vegagerðinni um Gufudalssveit og Dynjandisheiði án frekari tafa. Við Vestfirðingar sættum okkur ekki við neitt minna en að þessi verk verði unnin svo hratt sem unnt er af tæknilegum ástæðum. Fjárheimildir hins opinbera til verksins verða að taka mið af því, en verktíminn má alls ekki ráðast af of naumum fjárheimildum, líkt og við höfum orðið vitni af síðustu misserin, jafnt á Dynjandisheiðinni og í Gufudalssveitinni.

Krafa okkar Vestfirðinga er sú að áður en gengið verði til alþingiskosninga 30. nóvember nk. liggi það afdráttarlaust fyrir með opinberum hætti, að þessar mikilvægu samgöngubætur verði að veruleika svo fljótt sem verða má af tæknilegum ástæðum. Það er eiginlega ekki hægt að fara fram á neitt minna.

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi alþingismaður Vestfjarða og Norðvesturkjördæmis.

DEILA