Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ákvað á mánudaginn að leggja til við bæjarstjórn að kr. 10.000.000 verði eyrnamerktar verkefni um frístundastyrk á árinu 2025 og að fjárhæðin verði hluti af fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2025.
Tildrögin eru að bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins bókuðu á fundi bæjarstjórnar í lok október stuðning við lækkun fasteignagjalda en vildu taka upp frístundastyrk.
Bókunin var eftirfarandi:
„Bæjarfulltrúar framsóknarflokksins fagna jákvæðri fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2025. Ljóst er að samstaða og samvinna bæjarstjórnar ásamt uppsveiflu í atvinnulífi í sveitarfélaginu er að skila sér í betri árangri. Framsókn styður lækkun álagningarhlutfalls fasteignagjalda enda eiga íbúar sveitarfélagsins að njóta þess þegar betur árar. Við vinnu milli áætlana myndi Framsókn vilja skoða að gera enn betur og horfir þá sérstaklega til fjölskyldufólks. Í mörgum sveitarfélögum er veittur frístundastyrkur. Frístundaiðkun barna er kostnaðarsöm og myndi frístundastyrkur vera góð búbót til barnafjölskyldna í Ísafjarðarbæ. Einnig er þetta hvati til íþrótta og tómstundaþátttöku barna og unglinga og styrki grunn þess að öll börn geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Framsókn telur frístundakort gera sveitarfélagið enn samkeppnishæfara þegar kemur að búsetuákvörðun fjölskyldufólks. Framsókn leggur til að tekið verði til athugunar að taka upp frístundastyrk barna fyrir árið 2025, skoða hvernig önnur sveitarfélög vinna með frístundastyrk og kostnaðarmeta verkefnið.“