Vegna fyrirspurna frá notendum og fjölmiðlum vill Hagstofa Íslands árétta að breytt mat á mannfjölda fól í sér viðbrögð við auknum mun á skráðum íbúafjölda samkvæmt þjóðskrá og manntali Hagstofu Íslands.
Við gerð manntals 2021 varð ljóst að fjöldi skráðra íbúa endurspeglaði ekki raunverulegan íbúafjölda og brást Hagstofan við í kjölfarið með bættum aðferðum.
Munurinn á þjóðskrá og mannfjöldatölum Hagstofunnar felst í því að tölur Hagstofunnar endurspegla fjölda þeirra sem eru raunverulega búsettir í landinu en tölur Þjóðskrár um skráða íbúa ná til þeirra sem skráðir eru með lögheimili í landinu óháð því hvort þeir séu raunverulega búsettir hér eða ekki.
Samtals bjuggu 388.790 manns á Íslandi í lok þriðja ársfjórðungs 2024, 199.340 karlar, 189.250 konur og kynsegin/annað voru 190.