Í fjáraukalögum fyrir 2024, sem er á leiðinni í gegnum Alþingi þessa dagana er lagt til að 200 m.kr. framlag verði veitt til nauðsynlegra viðgerða á Breiðafjarðarferju sem ráðast þurfti í eftir kaup á ferjunni í september 2023. Kaupverðið var 3,5 milljónir evra eða um 525 m.kr.
Leitað var til Vegagerðarinnar um nánari upplýsingar um fjárveitinguna. Í svörunum segir að :
„Þessi kostnaður verður til af kaupverði, flutningi ferjunnar, kostnaði vegna kaupanna, breytinga og uppfærslna sem gerðar voru á ferjunni áður en hún fór í rekstur til þjónustuaðila. Stærstur hluti þessa kostnaðar féll til á árinu 2023 en hluti af kostnaði vegna breytinganna fellur til á árinu 2024.
Þegar fjárveiting til kaupanna var ákveðin var ekki að fullu ljóst í hversu miklar viðgerðir þyrfti að ráðast í til að gera skipið sem best úr garði áður en það færi í rekstur hjá Sæferðum á Breiðafirði. Erfitt er að sjá heildarumfang viðgerða fyrr en skip er komið í slipp, og þá kemur oft ýmislegt óvænt upp á sem þarf að bregðast við.
Endurbætur og viðgerðir fólu meðal annars í sér að koma fyrir nýjum landfestivindum og glussastöðvum, útbúa gámasvæði, yfirferð á aðalvélum og skollotftskælum, ísetningu á krana og kranadælum, breytingu á kanti fyrir ramp auk fjölmargra minni verkefna.
Í raun er ekkert eitt stórt sem að telur í þessu heldur er um að ræða almenna klössun og fyrirbyggjandi viðhald.“