Vinstri græn: gegn laxeldi og virkjunum á hálendi Vestfjarða

Vinstri hreyfingin – grænt framboð kynnti í gær kosningaáherslur sínar fyrir komandi Alþingiskosningar.

Fram kom í máli varaformannsins Guðmundar I. Guðbrandssonar að flokkurinn vilji friða Eyjafjörð, Öxarfjörð og Seyðisfjörð fyrir sjókvíaeldi og fasa út það eldi í opnum kvíum sem fyrir er. Í rökstuðningi sagði hann að eldislax blandaðist við villtan lax og það skaði hagsmuni fólks sem treysti á tekjur og atvinnu af sjóstangveiði. Þetta væri því byggðamál. Laxeldið ætti að fara upp á land og vera í lokuðum kvíum.

Flokkurinn vill friða hálendi landsins og hálendi Vestfjarða fyrir virkjunum. Tvær virkjanir Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun hafa verið samþykktar í rammaáætlun. Engu að síður lýsti formaður flokksins Svandís Svavarsdóttir því yfir í vðtali við Morgunblaðið nýlega að hún væri á móti Hvalárvirkjun.

Miðað við kosningaáherslurnar er flokkurinn andvígur bæði Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun þrátt fyrir samþykki Alþingis. Hálendi Vestfjarða var ekki frekar skýrt í kynningunni í gær svo það er óvíst hvaða virkjunarhugmyndir aðrar á Vestfjörðum Vinstri grænir munu styðja.

Þá kom fram að flokkurinn er andvígur hvalveiðum.

Streymi frá kynningunni:

https://www.facebook.com/vinstrigraen/videos/1108881467606666

DEILA