Nausti NK 97 ex Sigrún ÍS 113

1115. Nausti NK 97 ex Sigrún ÍS 113. Ljósmynd Hreiðar Olgeirsson.

Nausti NK 97 var gerður út frá Neskaupstað á árunum 1990 – 1992 en upphaflega hét hann Kópur SU 154 frá Reyðarfirði.

Báturinn var smíðaður árið 1970 hjá Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar hf. á Ísafirði og var 38 brl. að stærð.

Kópur var seldur til Ísafjarðar haustið 1971 þar sem hann fékk síðar einkennisstafina ÍS og númerið 160.

Frá árinu 1973 hét hann Berghildur SI 137 með heimahöfn á Siglufirði en þrem árum síðar var báturinn aftur kominn vestur. Nú til Súðavíkur þar sem hann fékk nafnið Sigrún ÍS 113.

Það var svo árið 1990 sem báturinn fékk nafnið Nausti sem hann bar til ársins 1992 en þá fékk hann nafnið Eldhamar GK 13.

Frá árinu 1996 bar hann nöfnin Stakkur KE 16, Geir Goði GK 245, Geir Goði RE 245, Gvendur á Skarði RE 245 og að lokum aftur Geir Goði RE 245.

Báturinn dagaði upp í Hafnarfjarðarhöfn og fór að lokum í brotajárn haustið 2019.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

DEILA