Fram kemur í Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins að avinnutekjur á mann í fiskeldi voru 957 þúsund krónur á mánuði fyrstu níu mánuði ársins. Atvinnutekjur á mann í öllum atvinnugreinum samanlagt voru um 773 þúsund krónur á mánuði á fyrstu níu mánuðum ársins.
Atvinnutekjurnar í fiskeldinu voru því 24% hærri en landsmeðaltal atvinnuteknanna. Atvinnugreinin er í fjórða sæti yfir hæstu atvinnutekjur á mann hér á landi.
Um samanburð er að ræða á launagreiðslum þar sem ekki er tekið tillit til fjölda vinnustunda, en hlutastörf eru t.d. misalgeng á milli atvinnugreina. Eins er menntunarstig á milli atvinnugreina mishátt, sem einnig hefur áhrif á launagreiðslur. Þessar tölur gefa þó ákveðna vísbendingu um hvernig fiskeldi kemur út í samanburði við aðrar atvinnugreinar hér á landi þegar kemur að atvinnutekjum segir í fréttabréfi Radarsins. Það skiptir máli og þá sér í lagi þegar hugað er að þeim sóknarfærum sem Íslendingar standa frammi fyrir í fiskeldi og framtíðarstefnu Íslendinga í atvinnumálum.
Mynd úr fréttabréfinu sem sýnir atvinnutekjurnar eftir atvinnugreinum. Fiskeldið er í fjórða sæti og borga t.d. nærri tvöfalt meira en gisti- og veitingastaðir.
að jafnaði 890 manns á mánuði
Samkvæmt tölum Hagstofunnar fengu að jafnaði um 890 einstaklingar greiddar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í fiskeldi í mánuði hverjum á fyrstu níu mánuðum ársins. Frá sama tímabili árið 2010 hefur fjöldinn hátt í fimmfaldast. Sama er upp á teningnum með staðgreiðsluskylda launasummu, þ.e. samanlagðar staðgreiðsluskyldar launagreiðslur alls launafólks innan greinarinnar, sem hér eru nefndar atvinnutekjur. Þær námu ríflega 7.600 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins, sem er hátt í níu sinnum hærri fjárhæð að raunvirði en á sama tímabili árið 2010. Vart þarf að nefna að aldrei hafa fleiri einstaklingar starfað í fiskeldi hér á landi og nú í ár. Að sama skapi hafa atvinnutekjur í greininni aldrei verið meiri segir í fréttabréfinu.