Vikuviðtalið: Jón Jónsson

Ég heiti Jón Jónsson og er þjóðfræðingur á Ströndum. Ég á heima á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð, ég og konan mín, Ester Sigfúsdóttir frá Siglufirði, keyptum jörðina og fluttum þangað með börnin okkar fjögur árið 2000. Það var aðeins á móti straumnum á þeim tíma, við höfðum átt heima í Reykjavík í átta ár. Sjálfur er ég uppalinn á Ströndum, frá bænum Steinadal í Kollafirði, foreldrar mínir voru Jón Gústi Jónsson og Ásdís Jónsdóttir, þau eru nú bæði látin. Ég á þrjú eldri systkini á Hólmavík og þrjú yngri syðra.

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa

Ég starfa hjá Háskóla Íslands, Rannsóknasetri HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu sem er staðsett í Þróunarsetrinu á Hólmavík. Þar er unnið að margvíslegum rannsóknarverkefnum og miðlun sem tengjast þjóðfræði, verkefnin snúast til dæmis um þjóðtrú, gamlar dagbækur og ljósmyndir. Sum eru á landsvísu, en önnur snúa sérstaklega að svæðinu. Mér finnst ógurlega gaman að grúska í fortíðinni og hef sérstakan áhuga á daglegu lífi fólks og hversdeginum. Ég get alveg gleymt mér við að skoða daglegt líf á Ströndum fyrr á öldum. Síðari hluti 19. aldar er mitt uppáhaldstímabil.

Svo er ég líka aðeins að kenna í þjóðfræðinni. Ég kenni námskeið um hagnýta þjóðfræði á meistarastigi, sem snýst um hvernig þau sem læra þetta fag geta svo nýtt sér það í framtíðinni. Hvort heldur sem er í ólíkum störfum eða gert þjóðfræðina að atvinnu sinni. Námskeiðið er býsna skemmtilegt og virkilega gaman að kynnast nemendunum. Ég kenni á vikulegum netfundum og svo fer ég einu sinni snemma á önninni í staðlotu suður og svo koma nemendurnir líka í heimsókn til Hólmavíkur í vinnulotu í eina viku. Það hristir hópinn saman.

Menning og mannlíf á Ströndum

Ég hef unnið að allskonar menningar- og þjóðfræðiverkefnum alveg frá því ég útskrifaðist frá HÍ á síðustu öld, vinnan og áhugamálin hafa alltaf fléttast dálítið saman. Ég hef meðal annars verið svo lánsamur að taka þátt í nokkrum skemmtilegum uppbyggingarverkefnum hér á Ströndum sem hafa haft góð áhrif á ferðaþjónustu og atvinnulíf.

Þar er helst að nefna ferðamannastaðinn og -segulinn Galdrasýningu á Ströndum sem opnuð var á Hólmavík árið 2000 og safnið og menningarmiðstöðina Sauðfjársetur á Ströndum sem opnaði í félagsheimilinu Sævangi 2002. Bæði hafa starfað óslitið síðan og lagt ríkulega af mörkum til mannlífs og menningar á svæðinu.

Fyrir utan konuna mína er Leikfélag Hólmavíkur svo stóra ástin í lífi mínu. Mér finnst alveg ótrúlega gaman að standa í öllu því brasi sem fylgir því að leika í leikriti hjá áhugaleikfélagi. Ég hef leikið í vel yfir 20 leikritum hér á Ströndum og tekið þátt í allskonar konar öðrum smáverkefnum, samið leikrit og leikstýrt. Annars vegar er það leiklistin sjálf sem  heillar, glíman við karakterinn á æfingum og sælutilfinningin þegar vel tekst til á sýningum. Hins vegar er það félagsskapurinn við fólk sem vinnur að sameiginlegu markmiði sem er eiginlega engu öðru líkur, að deila gleðinni með allskonar skemmtilegu fólki.

Það verður aldrei ofmetið hvað menning og mannlíf skiptir miklu máli á stöðum eins og Ströndum. Ekki bara fyrir ímynd svæðisins, heldur líka fyrir íbúana og sjálfsmynd þeirra, fólkið sem hér lifir og starfar.

Mínar bestu minningar gerast í framtíðinni

Nú er ég hins vegar hættur öllum afskiptum af menningarmálum hér á Ströndum. Við hjónin höfum tekið stefnuna suður, keypt okkur íbúð í Breiðholtinu og ætlum að flytja þangað eftir áramótin. Öll börnin okkar búa á höfuðborgarsvæðinu og hafa gert í nokkur ár. Við verðum kannski með annan fótinn áfram viðloðandi og höfum ekki ákveðið endanlega hvort við seljum Kirkjuból. Það kemur betur í ljós hvort við getum átt jörðina áfram, þegar líður á næsta ár.

Konan mín hefur verið safnstjóri á Sauðfjársetrinu síðustu 12 árin, en er nú hætt störfum þar. Hún vill ekki búa hér lengur, það tengist leiðindum og flokkadrætti í samfélaginu síðustu misseri. Það væri minn missir en ekki hennar, ef ég færi ekki með. Ég ætla hins vegar að halda eitthvað dálítið lengur í mína vinnu hjá Rannsóknasetrinu, en þetta skýrist betur með tímanum.

Vonandi eru ævintýralegir og viðburðaríkir tímar framundan, mér hefur alltaf líkað vel þar sem ég er búsettur hverju sinni. Þetta verður bara skemmtilegt allt saman. Ég segi bara eins og listamaðurinn Erró sagði einhvern tíma í viðtali, það er búið sem búið er og vonandi eiga allar mínar bestu minningar ennþá eftir að gerast.  

DEILA