innviðafélag Vestfjarða hefur sent frá sér ályktun um stöðu samgöngumála á Vestfjörðum í ljósi ástandsins síðustu dag. Þar segir að Vestfirðingar þurfi að búa við óöryggi og lokun vega. Það skerði samkeppnishæfni atvinnulífsins á Vestfjörðum. Minnir félagið á tillögur sínar um Vestfjarðalínu.
„Eins og kunnugt er hafa aurskriður fallið víða á síðustu dögum á Vestfjörðum. Jarðvegur er blautur eftir mikla úrkomu undanfarið. Afleiðingin er lokun vega og óöryggi í samskiptum og samgöngum.
Við þetta búa Vestfirðingar, sem starfa og þurfa að sækja þjónustu eins og læknisþjónustu, í nærliggjandi byggðir. Fyrir vestfirsk fyrirtæki þýðir þetta skert afhendingaröryggi útflutningsafurða og aðfanga. Ótryggir vegir á milli byggðarlaga skerða samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Sem dæmi er alvarleg lokun vegar um Eyrarhlíð. Um þann veg fara 14o milljóna króna útflutningsverðmæti af laxi dag hvern. Um þann veg fara einnig langmestar tekjur Fiskmarkaðar Vestfjarða í Bolungarvík. Á árinu hefur markaðurinn selt 7.500 tonn fiskafurða fyrir 2,5 milljarða króna frá Bolungarvík sem fara þessa leið út bænum.
Það samgöngurof sem orðið hefur á Vestfjörðum undanfarna daga vegna samgönguinnviða sem setið hefur á hakanum. Þetta rof er alvarleg áminning um nauðsyn öruggari og áreiðanlegri samgöngur í fjórðungi.
Vegna þessa minnir Innviðafélag Vestfjarða á tillögur um Vestfjarðalínu. Sem er ákall um uppbyggingu jarðganga og annarra samgöngumannvirkja sem sérstakt og afmarkað viðfangsefni. Mikilvægur hluti Vestfjarðalínu er uppbygging vegskála um Eyrarhlíð og Álftafjarðargöng. Þetta hefði tryggt að fólk hefði komist heim til sín eftir vinnu í gær og afurðir á markað með tilheyrandi gjaldeyristekjum.
Innviðafélag Vestfjarða minnir á að atburðir síðustu daga eru í senn áminning og ákall um og áreiðanlegri samgöngur á Vestfjörðum. Ítrekuð samgöngurof eru óásættanleg fyrir Vestfirðinga sem og aðra. Breytum því með samstilltu átaki í uppbyggingu samgönguinnviða á Vestfjörðum.“