Miðflokkurinn: fiskeldið verður ekki bannað

Þrír efstu menn listans á fundinum í Dokkunni. Frá vinstri Sigurður Páll Jónsson, Ingibjörg Davíðsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Frambjóðendur Miðflokksins voru á Ísafirði á mánudaginn og héldu opinn fund um kvöldið á Dokkunni. Veðrið var með versta móti og hafði það áhrif á aðsókn en engu að síður var ágæt mæting og fengu frambjóðendur margar spurningar að loknum stuttum framsöguræðum. Mest var rætt um orkumálin, fiskeldið og atvinnumálin.

Í máli Gunnars Braga Sveinssonar, 2. manns á framboðslistanum kom skýrt fram að flokkurinn myndi ekki standa að því að banna fiskeldið. Hann benti á að viðsnúningur hefði orðð á Vestfjörðum með tilkomu laxeldisins og verkefni stjórnmálanna væri að finna leiðir til þess að laxeldið og verndum villta laxsins gæti farið saman. Nýta þyrfti nýjustu tækni þegar glímt væri við vanda eins og lúsaálag og unnið væri að því að takmarka mögulega blöndun milli eldislax og villtra laxastofna.

Varðandi orkumálin voru svörin skýr hjá frambjóðendunum að þeir töldu nauðynlegt að virkja á Vestfjörðum og styddu Hvalárvirkjun og fleiri virkjanir á því svæði. Varðandi Vatnsdalsvirkjun væri fyrirliggjandi andstaða Vesturbyggðar og því þyrfti að ræða það mál frekar.

Ingibjörg Davíðsdóttir oddviti listans fór yfir helstu atriðin í stefnuskrá flokksins fyrir komandi kosningar og kom fram hjá henni að flokkurinn vildi einfalda hið opinbera kerfi og regluverkið og stytta atgreiðslutíma erinda.

Spurt var um strandveiðar og var því svarað til að skoða þyrfti breytingar á dagakerfinu m.a. að opna fyrir sveigjanlegri nýtingu daga að vali hvers báts.

DEILA