Lýðræði eða kúgun?
Ég var beðin um betri útskýringar en ég hafði áður látið frá mér fara á orðum mínum um stöðuna í Strandabyggð og þrátt fyrir að ég hafi ekki ætlað að tjá mig frekar ákvað ég að verða við þeirri beiðni til að skýra þá málavöxtu fyrir þeim sem vilja vita. Ég tek það fram að umfram allt trúi ég á byggðina mína. Vaxtarmöguleika, velsæld og framfarir. Sem og frið.
Snýst þetta allt um afsökunarbeiðni okkar og orðanotkun?
Nei, ég tel að þetta snúist ekki um afsökunarbeiðni heldur lýðræði og mannréttindi og því miður eru afar litlar líkur á að friður komist á í Strandabyggð hvað sem öllum afsökunarbeiðnum líður fyrr en fyrrum valdhafar komast aftur til valda í eigin persónu eða í gegnum fulltrúa sína eins og reynt hefur verið og staðan er nú. Með góðu eða illu.
Nú eða að fólk sammælist einfaldlega um að lúta lýðræðinu. Þar sem siðferðið er ekki umsemjanlegt og teygjanlegt heldur lýtur almennum lögmálum. Er það ekki annars yfirleitt þannig sem kaupin ganga fyrir sig á eyrinni?
Að skýra rétt og satt frá. Það skiptir svo sannarlega máli.
Frá árinu 2006 til ársins 2022 áttu þeir bræður Jón Jónsson og Jón Gísli Jónsson sæti í sveitarstjórn Strandabyggðar, annar hvor eða báðir.
Jón Gísli frá 2006-2010 sem þriðji maður en sem oddviti frá 2010 og alveg til ársins 2022 Frá 2010 -2014 sátu þeir sinn fyrir hvorn listann og höfðu því öll völd eitt kjörtímabil. Jón Jónsson hefur átt sæti í sveitarstjórn frá 2010 – 2014 og svo aftur frá 2018 – 2022.
Frá árinu 2005 til 2021 fékk Trésmiðjan Höfði rúmar 175 m greiddar fyrir þjónustukaup frá Strandabyggð, Galdrasýning á Ströndum fékk tæpar 60 milljónir (59.761 kr frá 2008 til 2020) og Sauðfjársetur á Ströndum 7,5 milljónir. Þessar tölur eru opinberar og ættu að vera öllum aðgengilegar ef eftir þeim væri leitað. Ef raunverulegur vilji er til að skoða þetta ofan í kjölinn. Sveitarstjóri þeirra bræðra lengst af var svo Andrea Kristín Jónsdóttir.
Enn eitt kostnaðarsama verkefnið sem Strandabyggð hefur staðið straum af, var svo Byggðasaga Stranda en vonandi fer að komast botn í það fljótlega hver fékk hvað greitt og fyrir hvað í þeim efnum.
Þessar staðreyndir hér að ofan eru óvéfengjanlegar en svo er að sjálfsögðu hægt að ræða fram og til baka hvort allar framkvæmdir og styrkveitingar hafi verið nauðsynlegar og eðlilegar á hverjum og einum tíma. Oft er gott að vera vitur eftir á og ætla ég ekki að leggja á það dóm hér en mér dettur samt í hug hvort eitthvað af þessum milljónum hefði heldur átt að fara í að malbika kannski fleiri götur, steypa einhverjar gangstéttir, eða sinna endurbótum í Íþróttamiðstöð og eða Grunnskólanum sem vitað var að var undirlagður af myglu, og þar sem lögbundin starfsemi fer fram?
Um þetta, snérist gagnrýnin, þar sem ég gerðist svo kræf að setja við siðferðislegt spurningarmerki fyrir ári síðan eða svo. Gagnrýni á verklag og beiðni um vinnufrið í Strandabyggð. Við þá bræður á ég annars ekkert sökótt og kann ágætlega við þá hvað svo sem öðrum finnst hentugt að teikna upp. Þeir hafa báðir komið mörgu góðu til leiðar, hvor á sinn hátt.
Þorgeir Pálsson var ópólítískt ráðinn Sveitarstjóri í Strandabyggð árið 2018 af nýkjörnum oddvita sem vildi koma á breytingum og endurnýjun. Breytingum sem stór hluti samfélagsins á Ströndum, hafði kallað eftir í mörg ár. Ákalli frá heimamönnum sem löngu voru farnir að setja spurningarmerki við verkefni þeirra bræðra í sveitarstjórn hvort sem var í formi útdeilingar verktakaverkefna án útboðs eða styrkveitinga þeirra til þeirra sjálfra. Því til sönnunar er m.a. til undirskiftarskjal íbúa, þess efnis, til sveitarstjórnar frá árinu 2013. Mörgum árum áður en Þorgeir fór að hafa nokkur afskipti af eða gagnrýna rekstur sveitarfélagsins.
Oddvitinn sem komst til valda 2018, sem réði Þorgeir, er heimamaður, kona, sem eftir mikinn mótbyr frá fráfarandi valdhöfum flutti af staðnum eftir tvö ár í embætti. Hér má fylgja með að tveir sveitarsjórnarmenn til viðbótar, sem ósammála hafa verið þeim bræðrum hafa einnig hætt afskiptum af pólitík og flutt af staðnum síðan, og nú síðast sögðu tveir samflokksmenn Þorgeirs sig frá setu í sveitarstjórn eftir að þeim og fjölskyldum þeirra, hafði verið hótað ofsóknum sem og einn til viðbótar sem ekki treysti lengur leikreglunum. Hvað finnst okkur um það?
Aftur í söguna
Þorgeir hélt þó á þessum tíma, eftir brotthvarf þess oddvita sem réði hann, áfram þeirri faglegu tiltekt og endurbótum sem hann var ráðinn til en nú undir stjórn oddvita fyrrum valdhafa sem aftur var kominn í sitt fyrra sæti. Öll vinnan frá Þorgeirs hendi var eins hlutlægt unnin og mögulegt var, með hagsmuni alls samfélagsins að leiðarljósi.
Tiltektin, sem hann hafði frá upphafi, reynt eftir fremsta megni að vinna í samvinnu og samráði við sveitarstjórnarfólk var í formi leiðbeininga, ábendinga, leiðsagnar lögmanna, leiðsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og annarra þeirra fagaðila sem best voru til þess fallnir að veita ráðgjöf í hverju og einu málefni. Tilgangurinn var að nýta það takmarkaða fjármagn sem Strandabyggð hafði yfir að ráða sem best í brýnustu verkefnin.
Tiltekt sveitarstjóra og aðallega ábendingar um siðferðislega óeðlilega úttdeilingu fjármagns í ljósi bágrar afkomu sveitarfélagsins á þeim tíma, m.a. þegar stór hlutur Strandabyggðar í Sævangi, húsnæði Sauðfjársetursins var gefinn eigendum Sauðfjársetursins, fór samt virkilega illa í þá bræður Jón Jónsson og Jón Gísla Jónsson sem í fyrstu hættu að eiga við hann samskipti en sögðu honum fljótlega upp störfum án allra útskýringa. Erfitt hefði sennilega verið fyrir þá að útskýra fyrir almenningi að þeim finndust þeir ekki jafn frjálsir og áður að höndla með almannafjármagn þegar faglega og málefnalega var verið að gagnrýna þá fyrir gjafagjörninga innan fjölskyldu.
Afgreiðsla mála í Strandabyggð hafði áður farið í gegn á ýmsan hátt, m.a. með hótunum Jóns Jónssonar um að samþykkja ekki fjárhagsáætlun komandi árs nema að hann fengi sínu fram. Sem hann fékk. Með þeim hætti var hann vanur að stjórna og því sér hann ekkert óeðlilegt við neitt af þessu. Eru allir sammála því?
Þorgeir vildi hins vegar halda áfram með ókláruðu verkefnin sem hann hafði byrjað á fyrir Strandabyggð, bauð fram lista í kosningunum 2022 með þessi verk á málefnaskránni og vann yfirburðasigur á mótframboðinu, lista með talsmönnum Jóns Jónssonar, sem settur hafði verið saman, að því virtist, til að halda áfram fyrri hagsmunagæslu fyrir þá sem höfðu setið að útdeilingu fjármagns í áratugi. Lista með stjórnarformann Sauðfjársetursins í oddvitasæti, Matthías Sævar Lýðsson. Mér er spurn hvort allt það A lista fólk sé í raun sammála því vinnulagi oddvitans að ganga sífellt erinda Jóns Jónssonar þegar kemur að stóru sem smáu?
Örfáum atkvæðum munaði að listi Þorgeirs, Strandabandalagið, fengi 4 sæti af 5 í núverandi sveitarstjórn. Augljóslega vildi almenningur á svæðinu framhald á þeirri vinnu sem Þorgeir og hans samflokksfólk stóð nú fyrir. Það sýndu úrslit kosninganna. Lýðræðislegra og eðlilegra sveitarstjórnarkosninga á Íslandi þar sem framboð Þorgeirs stundaði enga smölun, hringdi ekkert til að veiða atkvæði eða rægja mótframboðið heldur einungis talaði málefnalega og faglega um þau verkefni sem framundan væru.
Eftir úrslit kosninga varð fyrst fjandinn laus.
Að maður sem rekinn hafði verið fyrir gagnrýni skyldi nú, í afar styrku umboði heimafólks, hafa fengið lýðræðislegt leyfi til áframhaldandi starfa þótti ólíðandi hjá þeim sem gagnrýndir höfðu verið og Þorgeiri skildi aftur komið frá til að losna við hans óþægilegu endurskoðun og endurbætur. Sú vinna hefur nú staðið sleitulaust yfir, í hópi fárra en afar háværra einstaklinga sem safnað var í ófrægingarherinn, síðan eftir síðustu kosningar vorið 2022.
Fyrst Þorgeir varð ekki sigraður með lýðræðislegum hætti, og ekkert dugði að reka hann úr embætti þar áður, þá skyldi þetta unnið á annan hátt. Með árásum og áróðri sem sennilega höfðu áður komið öðrum lýðræðislega kjörnum fulltrúum til að hætta og flytja af staðnum.
Árásirnar fólu í sér ótal klögubréf og stjórnsýslukæru þar sem allt var þó aftur rekið til föðurhúsanna, en samt rangtúlkað í fjölmiðlum landsmanna af flutningsmönnum þeirra og andstæðingum Þorgeirs. Með rógburði, með ásökunum sem enginn fótur var fyrir, með útúrsnúningum og stanslausri sáningu og tortryggni í huga þeirra íbúa sem ekki voru nægjanlega vel meðvitaðir um málavöxtu.
Kjarni málsins er sá að Þorgeir vann sér það einfaldlega til saka að vera kosinn af heimafólki, fram yfir fráfarandi valdaöfl sem ekki hafa ennþá getað kyngt þeirri lýðræðislegu niðurstöðu.
Svo því sé skýrt til haga haldið þá hefur Þorgeir aldrei gagnrýnt tilvist safnanna á Ströndum eða mikilvægi þeirra heldur þvert á móti ítrekað hrósað þeim og nýtt sér þjónustu þeirra, en það hefur margsinnis verið skrumskælt, rangtúlkað og honum lögð orð í munn. Hann setti einungis spurningarmerki við það hvort og þá hve háir rekstrarstyrkir til þeirra frá fjársveltu sveitarfélagi, ættu rétt á sér í ár eða áratugi frá stofnun þeirra. Þegar gestakomur til safnanna á ári eru löngu farnar að hlaupa á tugum þúsunda. Ættu þau þá ekki að geta rekið sig sjálf? En þessa gagnrýni virtist Jón Jónsson ekki þola. Hefði ekki verið eðlilegra að taka einfaldlega bara þessum ábendingum, þakka samfélaginu fyrir allan fjárhagsstuðninginn og halda áfram rekstri sem svo vel hafði verið hlúð að, í fjölda ára, með almannafé?
Samstarfsmenn og -konur Þorgeirs í sveitarstjórnarpólitík á landsvísu, hafa mörg hver komið að máli við hann og aldrei sagst hafa horft upp á slíka útreið vegna sveitarstjórnarstarfa. Samband Íslenskra Sveitarfélaga telur að breyta þurfi lögum sem lúta að verndun löglega og lýðræðislegra kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnarpólitík á Íslandi svo þeim sé kleift að sinna þeim embættiskyldum sem þeir eru kostnir til án þess að vera gert það illmögulegt með atferli pólitískra andstæðinga og árásum sem spanna skalann frá áreiti til alvarlegra ofsókna og andlegs ofbeldis.
Myndi afsökunarbeiðni okkar lægja öldurnar og koma á friði?
Og þá hvernig afsökunarbeiðni?
Mögulega afsökunarbeiðni fyrir eitthvað sem við höfum aldrei sagt eða gert en hefur verið rangtúlkað með vilja og blásið upp í þeim tilgangi að koma Þorgeiri og hans fólki frá? Sem enn og aftur mistókst á dögunum þegar vantrauststillaga á hann var felld þrátt fyrir að samflokksmönnum hans hafi verið hótað alvarlegum ofsóknum ef þau styddu hana ekki.
Ef svo væri skulum við með glöðu geði skrifa hana og birta í öllum fjölmiðlum landsins gegn því að friður komist á í samfélaginu okkar, fólki verði ekki lengur skipað í fylkingar og öllum árásum á samflokksfólk Þorgeirs og okkur verði hætt. Okkur finnst friður og sátt í heimabyggð virkilega mikilvæg.
Ef þetta snérist í raun um meiðyrði en ekki tilbúinn misskilning hefði verið eðlilegast að stefna mér einfaldlega. En þá hefði komið fram að ég hef hvergi borið stuld eða fjárdrátt á Jón Jónsson og því ekkert hægt að rangtúlka eða skrumskæla. Slík staðreynd hefði ekki gagnast sem hergagn. Orðið sem ég notaði í pistli mínum fyri ári var ,,sjálftaka” til að lýsa því sem mér fannst siðferðislega rangt í útdeilingu fjármagns í valdatíð þeirra bræðra. Lítið mál ætti að vera fyrir þá einstaklinga sem ekki átta sig á merkingu þess orðs að fletta því upp hjá Árnastofnun.
Í ljósi þess sem við höfum reynt og upplifað undanfarin ár finnst okkur líklegra er að afsökunarbeiðni yrði bara skrumskæld, rangtúlkuð og nýtt sem vopn í áframhaldandi óhróðursherferð og múgsefjun sem svo aftur tekur mikinn tíma frá almennum störfum sveitarstjóra og meirihluta, sem bitnar svo á skilvirkni í þeirri vinnu sem raunverulega þarf að vinna fyrir sveitarfélagið. Slíkt gagnast vel sem niðurrif. Sá sem er upptekinn stóran hluta vinnutímans við að verjast ofsóknum hefur minni tíma til að sinna raunverulegum störfum sínum. Það ætti hver að sjá. En það er einmitt hentugt þeim sem ekki vilja sjá Þorgeir og samflokksfólk hans, sem á alla mína aðdáun skilið, ná árangri. Í raun hafa þau komið ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma, samfélaginu öllu til heilla, þrátt fyrir þessa óbilgjörnu orrahríð.
Ennfremur skila slíkar árásir þeim árangri til lengri tíma að fólk sem þarf að gjalda fyrir lýðræðislega þátttöku sína í samfélaginu með óhróðri og jafnvel mannorðsmissi mun ekki gefa kost á sér aftur. Er það heilbrigt og eðlilegt?
Við hvernig samfélagsreglur viljum við búa?
Viljum við kúgun og ofbeldi eins og á tímum Rannsóknarréttarins þar sem fólk játaði einfaldlega það sem fyrir það var lagt sama hvert sannleiksgildið raunverulega var, einungis til að lifa af og halda friðinn? Hvað heitir það? Vissulega játaði Galíleó að hann hefði rangt fyrir sér til að halda lífi en í dag er löngu fullsannað að jörðin snýst í kringum sólina en ekki öfugt.
Viljum við samfélag þar sem engum er stætt á að gagnrýna eða rísa upp gegn þeim sjálfskipuðu valdhöfum sem hreiðrað hafa um sig, sem ekki getað unað lýðræðinu og vinna leynt og ljóst að eyðileggingu mannorðs þeirra sem lýðræðislega eru kjörnir? Eins og Jón Jónsson, með hópi fólks sem hann stýrir, tengdum vinnu-, vina- og fjölskylduböndum hefur unnið gegn Þorgeiri Pálssyni og samstarfsfólki hans, síðan hans flokkur vann kostningarnar og hann varð oddviti og aftur sveitarstjóri.
Við hvað er hann Jón hræddur?
Af hverju er svona mikilvægt að koma Þorgeiri og hans samstarfsfólki frá völdum? Er allt orðið leyfilegt í þeirri baráttu, sama hversu grimmt og siðlaust það er? Ef Jón Jónsson hefði ekki setið í sveitarstjórn á meðan söfn og stofnanir honum tengdar fengu tugi milljóna í styrki, hefði enginn, aldrei, gagnrýnt nokkurn skapaðan hlut. Af hverju er þessi staðreynd aldrei rædd? Væri ekki núna bara ágætis tímapunktur til að útskýra og færa rök fyrir þeim úthlutunarákvörðunum fyrir okkur skattborgurunum á svæðinu?
Strandabyggð er ekki einkaklúbbur heldur opinbert sveitarfélag og þar þarf að lúta ákveðnum samfélagsreglum. Eða hvað?
Viljum við samfélag þar sem þeir íbúar eru útskúfaðir, sem ekki taka þátt í einelti og árásum þeirra sem telja sig hafa alræðisvald? Er þetta ekki allt sérstaklega skýr birtingarmynd kúgunar og ofbeldis þar sem heilt sveitarfélag er sett í gíslingu meðvirkni af einum manni og hans fylgismönnum? Hvernig hefðu síðustu ár verið á Ströndum ef allir í fráfarandi sveitarstjórn hefðu einfaldlega sætt sig við lýðræðið og horft fram á við heildinni til handa, en ekki ráðist í þann skotgrafarhernað, af hefnigirni og áframhaldandi sérhagsmunagæslu, sem nú hefur litað allt bæjarfélagið?
Er hægt að öskra nógu lengi í búðinni og pirra nógu marga til að fá nammi?
Viljum við búa í lýðræðissamfélagi þar sem löglega kjörnir og heiðarlegir fulltrúar fá vinnufrið? Þar sem þeir þurfa ekki að láta það yfir sig ganga að vera hraktir frá völdum með árásum og ofbeldi? Þar sem pólitískir andstæðingar og hagsmunaaðlilar sem í reiði sinni og hefndarhug yfir að hafa glatað valdastöðum og aðgengi að fjármagni sér til handa, geta látið nógu marga bandamenn, sem sjálfir hafa jafnvel hagsmuna að gæta, skrifa misvitrar áróðursgreinar í fjölmiðla og haldið svo oft fram ósannindum að þeir sem ekki vita betur fari að efast og jafnvel trúa ósannindunum.
,,Pabbi Lua var vanur að segja að það besta við lygi væri að ef maður endurtæki hana nógu oft þá færi maður sjálfur að trúa henni, hægt og hægt hyrfi það myrka og forboðna. Í bernsku áttaði Lua sig á að þetta væri ekki alveg rétt þar sem sannleikurinn væri samt alltaf til staðar. Hann hvarf ekki, hversu oft sem maður laug. Sá eini sem maður blekkti á endanum væri maður sjálfur” Lundberg.
Hver virði er lýðræðið og nennum við að standa vörð um það? Eða ekki?
Hver verður að svara því fyrir sig en höfum hugfast að þögn og meðvirkni er oft á tíðum sama og samþykki. Við berum öll ábyrgð.
Ef við beygjum okkur undir árásir og ofbeldi sem til er komið vegna starfa í þágu lýðræðis er þá lýðræðið ekki fallið um sjálft sig? Erum við þá ekki komin á virkilega hálan ís og farin að lúta hættulegum gildum kúgunar? Viljum við fara þangað? Og hvað þá þegar spjótin fara að beinast að fleirum? Þegar sama hópi fólks dettur í hug að ófrægja aðra og fleiri í framtíðinni sem ekki verða þeim þóknanlegir á einn eða annan hátt, hvað gerum við þá?
Fyrir mér snýst þetta ekki lengur um persónur og leikendur í innansveitarkróníku Strandabyggðar. Þetta snýst um það hvort að heiðarlega einstaklinga, og lýðræðislega kjörna fulltrúa megi ofsækja svo illilega að þeir hrekist frá völdum í þorpi á Íslandi í dag. Árið 2024.
Hrafnhildur Skúladóttir
Höfundur er mannvinur, friðarsinni og áhugakona um heiðarleika og lýðræði.
Og með fullt málfrelsi.