Frá árinu 2007 hefur ferðasjóður íþróttafélaga fengið framlag á fjárlögum Alþingis og er ljóst að ferðasjóðurinn þarf að fá verulega hækkun á fjárlögum á næstu árum. Framlag ríkisins í ferðasjóðinn er beinn fjárhagslegur stuðningur við iðkendur í íþróttum og fjölskyldur þeirra og þá sérstaklega íbúa landsbyggðarinnnar sem þurfa að fara um langan veg mörgum sinnum á ári til að taka þátt í keppni í skipulögðu íþróttastarfi. Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands-ÍSÍ sér um úthlutun sjóðsins fyrir hönd ríkisins.
Í síðustu úthlutun voru 123,9 milljónir sem úthlutað var en heildarupphæð umsókna voru um 650 milljónir. Þarna er eingöngu verið að horfa til ferðakostnaðar ekki gisti-og uppihaldskostnaðar en sá kostnaður hefur hækkað töluvert mikið á undanförnum árum. Það er því kominn tími til að bæta gisti og uppihaldskostnaði við úthlutun sjóðsins og það verður ekki hægt nema að ríkisvaldið komi með öflugan stuðning inn í hann.
Mörg félög á landsbyggðinni og þeirra sjálfboðaliðar leggja á sig mjög mikla vinnu eingöngu við að fjárafla fyrir keppnisferðum ásamt því að sinna hinu hefðbundna íþróttastarfi sem er ansi fjölbreytt.
Samfylkingin vill draga úr ójöfnuði og aðstöðumun í íslensku samfélagi, aukin stuðningur við ferðasjóð íþróttafélaga er eitt af þeim verkfærum sem Alþingi getur eflt ennfrekar til að börn hvar sem þau búa á landinu njóti enn jafnari tækifæra til íþrótta- og tómstunda sem er eitt af markmiðum okkar í Samfylkingunni.
Hannes S. Jónsson
Hannes skipar 2.sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 30.nóvember.