Mun betri staða í vatnsveitu Bolungarvíkur

Hólsáin var vatnsmikil í rigningunni í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eftir að veðuraðstæður bötnuðu í gærkveldi og það hætti að rigna, breyttust aðstæður hratt í vatnsveitunni. Það minnkaði vatnið í lóninu og ástandið var viðráðanlegt.

Fram kemur í frétt á vefsíðu Bolungavíkurkaupstaðar að starfsfólk vatnsveitunnar hafi verið við vinnu fram á nótt og byrjaði snemma í morgun með góðum árangri. Allur síubúnaður virkar vel og er allt vatn geislað í samræmi við allar verklagsreglur.

Það sé því allt sem bendir til þess að vatnið sé aftur orðið eðlilegt og hæft til matvælavinnslu og drykkjar.

En það er stutt í næsta hvell sem kemur á morgun og er bærinn strax farinn að gera allt sem hægt er til þess að tryggja vatnsgæðin í gegnum þann skafl.

Unnið verður með Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða næstu daga að eftirliti og sýnatökum.

DEILA