Mikið vatnsveður á Vestfjörðum -Eyrarhlíð verður lokuð í kvöld og nótt

Þessa mynd sendi Landsbjörg frá Hestfirði tekin í gærkvöldi. Kofri í Súðavík og Björgunarfélag Ísafjarðar fóru til aðstoðar fólki á nokkrum bílum sem komust ekki yfir Rjúkandi þar sem hún flæddi yfir brúargólf. Bílar skildir eftir, fólk flutt til byggða.

Á Vestfjörðum gengur yfir mikil úrkoma eins og vegfarendur urðu varir við strax í gær þegar vegir lokuðust í Hestfirði og í Dýrafirði vegna aurskriðna. Fyrir hádegi fór vegurinn um Trostansfjörð í sundur og er því lokaður.

Rétt áðan tilkynnti Vegagerðin að vegurinn í Skutulsfirði um Eyrarhlíð væri lokaður vegna aurskriðu og einnig er lokað yfir Steingrímsfjarðarheiði. Enn er lokað í Hestfirði og mikið vatn yfir veg við Dvergastein í Álftafirði og í Ísafirði.

Þessa mynd fékk Bæjarins besta senda í dag sem tekin var um kl11:30 frá Dynjanda í Arnarfirði.

Meðalrennsli í Dynjanda er innan við 3 m³/s, en í dag kannski samkvæmt sjónrænu mati 16-18 m³/s. Mynd: Sölvi Sólbergsson.

Við Klettháls er verið að byggja tvær brýr, beggja vegna við hálsinn. Rúnar Þór Konráðs Brynjólfsson var þar á ferð rétt áðan og hann sendi þessa mynd:

Það lítur ekki vel út með brúarsmíðina.

Uppfært kl 17:00. Lögreglan á Vestfjörðum var að tilkynna að önnur skriða hafi fallið á Eyrarhlíð og að vegurinn verði því lokaður áfram í kvöld og í nótt. Verið er að gera ráðstafanir vegna þeirra sem eru staðsettir ,,öfugu“ megin við heimili sín.

DEILA