Forréttindapésinn ég

  Það eru mikil forréttindi að búa á landsbyggðinni, enda hafa stjórnmálamenn í 101 Reykjavík áttað sig á því og leggja í sífellu til að hækkun skatta á mig og annað forréttindafólk á mölinni.

  Á sóða í sveit (eins og mig) eru lagðir sérstakar álögur umfram íbúa á höfuðborgarsvæðisins vegna “flutnings” raforku, þrátt fyrir að framleiðsla rafmagns fari alfarið fram í dreifbýlinu.  Þá ákváðu Framsóknarmenn, Sjálfstæðismenn og Vinstri grænir að þrefalda svonefnt úrvinnslugjald á heyrúlluplast vegna þess að plast er voða vont og sennilega líka vegna þess að þeim finnst bændur eiga alltof mikið af peningum.

  Eitt af keppikeflum Sigurðar Inga, formanns Framsóknarflokksins, er svo að stórhækka skatta á notkun bifreiða með breytingum og hækkunum á eldsneytisgjöldum og öðrum gjöldum á bíla.  Það virðist vera með fullu samþykki og vilja skattahækkunarflokksins sem kennir sig við sjálfstæði.  Allt er gert til að gera landsbyggðarfólki erfitt fyrir á sama tíma og fjaðrirnar eru reyttar af þessari sömu landsbyggð með því að færa þingmenn þaðan suður í sollinn.  Þannig mun nú þingmönnum í norðvesturkjördæmi fækka um einn á alþingi íslendinga þrátt fyrir ójafna baráttu kjördæmisins við borgríkisþenkjandi þingmenn sem lítt þekkja til aðstæðna norðan Mosfellsbæjar.

Nýjasta nýtt er svo kapphlaup rétttrúnaðarflokkanna (e.woke flokkanna) í keppnisgreininni að banna sem mest, sem hraðast og með sem mestum skaða fyrir almenning.  Þannig bannaði ríkisstjórninn fyrir margt löngu nýskráningu og þar með innflutning bensín og díselbíla frá árinu 2030.  Þar sem mönnum hleypur stundum kapp í kinn vildi Gulli loftslagsráðherra bæta um betur og stakk upp á að flýta banninu til 2028.  Næstir á þann rétttrúnaðarvagn voru sjóræningjarnir í pírötum og lögðu þeir til bann frá árinu 2026 og síðast en ekki síst hafa Viðreisn og Samfylking nú greint frá áhuga sínum og áherslum á að banna bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti frá næsta ári eða árinu 2025. 

Opin spurning er:  Hvaða “woke” flokkur kemur með næstu stigmögnun vitleysunnar?  Verður það hvala-Svandís Svavars eða blóðmera-Inga Sæland?  Verða það kannski sannir sósialistar eða einhverjir aðrir “lýðræðisflokkar” sem telja að lýðræðið eigi að gilda um alla hina?  Getur kannski verið að Viðreisnarbændur átti sig á því að bílabann er ekki líklegt til vinsælda og slái því slíkum hugmyndum á frest.  Vandi er um slíkt að spá.

Áfram Ísland.

Högni Elfar Gylfason

Höfundur er sauðfjárbóndi, varaþingmaður og frambjóðandi Miðflokksins, en síðast og alls ekki síst ættaður úr Súgandafirði.

DEILA