Virkjum á Vestfjörðum – og það sem fyrst

Eitt af forgangsmálum Flokks fólksins er að við komum í veg fyrir orkuskort með því að virkja meira.  Gríðarlega mikilvægt er að við tryggjum sanngjarnt raforkuverð fyrir heimili og lítil fyrirtæki og atvinnulífið í heild.  Tryggja þarf afhendingaröryggi rafmagns með endurnýjun flutningskerfis og umhverfisvænum virkjanakostumí kjördæminu og hringtengingu til Vestfjarða og til Snæfellsness. Raforka er undirstaða öflugs atvinnulífs og ódýr raforka til heimila undirstaða velmegunar í landinu.

Mikilvægt er að það verði hafist handa sem fyrst að virkja á Vestfjörðum og ráðast í Hvalárvirkjun og Vatnsdalsvirkjun, sem er mjög fýsilegur virkjunarkostur vegna nálægðar við Mjólkárvirkjun. Vatnsdalsvirkjun yrði tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins, beint í tengivirki Landsnets í  Mjólká.  Tengingin væri því óháð núverandi Vesturlínu sem er 45 ára gömul. Vatnsréttindi í Vatnsdal eru hins vegar í eigu ríkisins.

Mikilvægt er að reglum um friðlandið í Vatnsfirði verði breytt sem fyrst, þannig að unnt sé að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun.  Friðlýsingin er barn síns tíma en Vatnsfjörður var friðlýstur sem friðland árið 1975, ári eftir þjóðhátíð sem þar var haldin í tilefni af 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. Tilgangur friðlýsingar var að vernda náttúru á þann hátt að fólki gefist kostur á að njóta hennar.  Friðlandið er alls um 20.000 ha. Um fjórir fimmtu hlutar þess eru grýtt og gróðurlítið hálendi en láglendið er að mestu kjarri vaxið. Virkjun í Vatnsdal mun ekki raska því og hægt er að virkja á svæðinu í góðu samræmi við Friðlandið. Samkvæmt mati þá er talið að einungis 0,2% af birkiskógum friðlandsins raskist. Ljóst er því að áhrif á birkiskóg í friðlandinu eru hverfandi. Miðað við fyrirliggjandi gögn eru framkvæmdir sem tengjast Vatnsdalsvirkjun ekki innan óbyggðra víðerna.  Staðsetning miðlunarlóna virkjunarinnar munu þó skerða þau óbyggðu víðerni sem eru nær lónunum en 5 km. Áhrifin á óbyggð víðerni eru einungis 0,41% af óbyggðum víðernum á Vestfjörðum. Verða það að teljast hverfandi neikvæð áhrif á víðerni Glámuhálendisins.

Með virkjuninni mun afhendingaröryggi rafmagns á Vestfjörðum gjörbreytast til batnaðar. Það ásamt endurnýjun flutnings og hringtengingu til Vestfjarða er forsenda frekari atvinnuuppbyggingar í fjórðungnum. Það er ekki eftir neinu að bíða og mikilvægt að hefjast handa sem fyrst.

EyjólfurÁrmannsson

Höfundur er þingmaður og oddviti F-lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.  eyjolfur@flokkurfolksins.is

DEILA