Í nýjustu skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna í Norðvesturkjördæmi fengju fimm flokkar kjörinn þingmann. Maskína birti í síðustu viku greiningu á könnun sem gerð var fyrstu vikuna í nóvember. Í könnuninn tóku 1.407 svarendur afstöðu til flokkanna. Ekki kemur fram hversu mörg svörin voru í kjördæminu en þau voru 78 á Vesturlandi og Vestfjörðum. Fá svör þýða að vikmörk eru víðari en ella og sveiflur á fylgi einstakra flokka milli kannanna geta verið miklar.
En samkvæmt þessari könnun eru Miðflokkurinn og Samfylkingin stærstu flokkarnir í kjördæminu með 19% hvor. Framsóknarflokkurinn kemur í þriðja sæti með 17%. Viðreisn er í fjórða sæti með 11% og þá Sjálfstæðisflokkurinn með 10%. Þessir fimm flokkar myndu allir fá kjörinn þingmann og sá stærsti þeirra fengi tvö þingsæti.
Píratar og Flokkur fólksins fá 6% hvor í könnuninni, Sósíalistaflokkurinn 5% og Vinstri grænir 3%.
Í töflunni að ofan er samantekt yfir þær fjórar kannanir sem birtar hafa verið um fylgi flokkanna í Norðvesturkjördæmi. Þrjár þeirra eru frá Maskínu og ein frá þjóðarpúlsi Gallup. Gallup könnunin er byggð á uppsöfnuðum svörum yfir allan októbermánuð, en Maskínukannanirnar standa yfir viku hver. Októberkönnun Maskínu var birt í lok október og nóvember könnunin var framkvæmd 1. – 7. nóvember.
Samfylkingin og Miðflokkurinn eru með mest fylgi í öllum könnunum en þó virðist það heldur vera að síga. Framsókn er næst þeim og fylgi þeirra er frekar á uppleið. Eins er fylgi Viðreisnar vaxandi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist lágt. Allir þessir flokkar fá þingsæti miðað við þessar mælingar. Flokkur fólksins er með misjafnar mælingar og töluverðar sveiflur eru í fylgi þeirra, en flokkurinn virðist eiga góða möguleika á þingsæti.
Píratar, Sósíalistaflokkurinn og Vinstri grænir eru fjarri því að fá kjördæmakosningu.
Ekki er unnt að spá fyrir um það hvaða flokkar gætu fengið jöfnunarþingsætið.
-k