Strandabyggð: þrír biðjast lausnar frá sveitarstjórn

Þorgeir Pálsson sveitarstjóri og efsti maður T lista. Mynd: visir.is

Þrír frambjóðendur af T lista, Strandabandalagsins, þar af tveir sveitarstjórnarmenn, hafa sent inn erindi til sveitarstjórnar og óska eftir lausn frá störfum. Erindi þeirra verður afgreitt á fundi sveitarstjórnar á morgun, þriðjudag.

Þeir eru Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Óskar Hrafnkell Halldórsson og Þröstur Áskelsson. Þau skipuðu 3. , 5. og 7. sæti framboðslistans. Áður hafa þau sem voru í 2. og 4. sæti listans misst kjörgengi vegna brottflutnings úr sveitarfélaginu.

Vænta má þess að sveitarstjórnin samþykki erindin og þá verða eftir af T lista aðeins fimm af tíu frambjóðendum. T listinn fékk þrjá menn kjörna í kosningunum 2022.

Eftir þessar breytingar verða sveitarstjórnarmenn T lista þau Þorgeir Pálsson, sem var í 1. sæti, Grettir Örn Ásmundsson, sem var í 6. sæti og Júlíana Ágústsdóttir sem skipaði 8. sætið.

Varamenn verða þá þær Þórdís Karlsdóttir og Marta Sigvaldadóttir sem voru í 9. og 10. sæti listans.

DEILA