Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna lýstu yfir andstöðu við Hvalárvirkjun við viðtali við þáttinn Spursmál á Morgunblaðinu á mánudaginn. Álfhildur Leifsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi svaraði ekki beint spurningu um afstöðu sína til Hvalárvirkjunar hér á Bæjarins besta en sagði „Hvalárvirkjun er komin í ákveðið framkvæmdaferli og þar hefur rammaáætlun lagt línurnar, en ég skil jafnframt þær áhyggjur sem snúa að áhrifum hennar á náttúru og lífríki.“
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri vildi ekki gefa upp afstöðu sína til Hvalárvirkjunar fyrr á árinu þegar hún var í forsetaframboði og sagði þá í viðtali við Morgunblaðið 9. maí að embættismenn hafi ekki skoðun á einstökum framkvæmdum.
Eftir að hún varð oddviti Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi leitaði Bæjarins besta til Höllu Hundar og innti hana eftir afstöðu hennar til Hvalárvirkjunar.
Halla Hrund: svarar ekki
Í svari sínu segir Halla Hrund að Hvalárvirkjun sé í nýtingarflokki samkvæmt rammaáætlun og að Orkustofnun hafi afgreitt þau gögn sem henni hafi borist varðandi verkefnið, en bendir á að ekki hafi verið sótt um virkjunarleyfi. „Við í Framsókn gerum okkur vel grein fyrir mikilvægi virkjunarframkvæmda á Vestfjörðum fyrir afhendingaröryggi og sjálfbæra uppbyggingu á svæðinu.“
Hún segir unnið að Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði sem komist vonandi fljótlega í gagnið. „Verkefni sem mun stuðla að auknu raforkuöryggi á Ströndum og á sunnanverðum Vestfjörðum.“
Þá nefnir hún áætlun Landsnets um að styrkja flutningskerfi raforku á Suðurfjörðum Vestfjarða sem sé mikilvæg til að mæta vaxandi orkuþörf og auka atvinnuppbyggingu og sjálfbæra þróun á Vestfjörðum.
„Þessi þróun er í fullu samræmi við stefnu Framsóknar um ábyrga nýtingu auðlinda og eflingu innviða landsins. Með slíkri uppbyggingu getum við tryggt að náttúra og atvinnulíf blómstri á Vestfjörðum og víðar um landið“.
Svarinu var fylgt eftir með því að ítreka spurninguna: styður þú Hvalárvirkjun?
„Hvalárvirkjun er þegar í nýtingarflokki – það er fyrirtækisins að sækja um leyfi, þing hefur tekið afstöðu og afgreitt.“