Andlát: Vilberg Vilbergsson

Villi Valli, heiðursborgari Ísafjarðarbæjar.

Látinn er Vilberg Valdal Vilbergsson, heiðursborgari Ísafjarðarbæjar. Hann var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð 26. maí árið 1930, sonur Vilbergs Jónssonar, vélsmiðs, og Jóhönnu Steinunnar Guðmundsdóttur. Villi Valli var gæddur óvenjulegum tónlistarhæfileiku og hann var ekki nema 12 ára þegar hann lék í fyrsta sinn á harmoniku fyrir dansi á Flateyri. 

Árið 1950 flutti Villi Valli til Ísafjarðar til að nema hárskera- og rakaraiðn hjá Árna Matthíassyni og varð það hans aðalstarf í yfir sextíu ár. Á Ísafirði hélt hann áfram í tónlistinni og stofnaði fjölda hljómsveita á næstu áratugum, tríó, kvartetta og stærri bönd, sem íbúar Ísafjarðarbæjar muna margir eftir. Árið 1959 tók Villi Valli við stjórn Lúðrasveitar Ísafjarðar og stjórnaði henni í níu ár, en var virkur félagi í henni lengi eftir það. Hann spilaði með Harmonikufélagi Vestfjarða um árabil. Hann gaf út tvo hljómdiska, árið 2000 „Villi Valli“ og árið 2008 „Í tímans rás“, auk þess sem hann spilaði í Saltfiskveit Villa Valla á diskinum „Ball í Tjöruhúsinu“ árið 2009. Villi Valli var einnig listmálari og eftir hann finnast mörg falleg verk í húsakynnum Vestfirðinga. Kona hans, Guðný Magnúsdóttir var en hún lést 2017.

Vorið 2018 samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að gera Vilberg Vilbergsson að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.

DEILA