Viðreisn: styðjum fiskeldið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og fyrrv. sjávarútvegsráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði aðspurð í samtali við Bæjarins besta að Viðreisn styddi laxeldið í sjó og teldi uppbyggingu þess mikilvæga fyrir þjóðarbúið.

Tilefnið var spurning til stjórnmálaflokkanna á fundi á Akureyri í gærkvöldi þar sem sýnd var heimildarmynd um stöðvun laxveiði í 33 ám í sumar í Noregi. Spurt var hvort flokkarnir vildu setja sólarlagsákvæði í lög um fiskeldi sem myndi banna sjókvíaeldi innan fárra ára.

Þorgerður Katrín lét það koma skýrt fram að hún styddi ekki slík áform. Benti hún m.a. á mikil og góð áhrif af uppbyggingu laxeldisins á byggðir á Vestfjörðum, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Sagði hún að laxeldið, bæði á sjó og á landi væru mikilvægar atvinnugreinar sem efldu þjóðarhag. Sérstaklega nefndi hún að stærri hluti af fiskeldisgjaldinu ætti að renna heim í hérað til þess að mæta uppbyggingu sveitarfélaganna.

Hins vegar áréttaði hún að fyrirtækin sem stunduðu laxeldið yrðu að sýna samfélagslega ábyrgð og að umhverfismál og dýravelferð væru mikilvæg atriði og að Viðreisn gerði kröfur um að atvinnugreinin legði sig fram í þeim efnum.

DEILA