Samfylking: vill ekki banna laxeldi í sjó

Logi Einarsson. Mynd: mbl.is / Kristinn

Í gær var frumsýnd á Akureyri myndin Árnar þagna sem fjallar um stöðvun laxveiði í 33 ám í Noregi í sumar. Samtök um náttúrvernd á Norðurlandi fékk fulltrúa stjórnmálaflokkanna til umræðna að lokinni sýningu.

Þar voru þeir spurðir um stuðning við þá tillögu að setja sólarlagsákvæði í gildandi lög um fiskeldi þannig að það laxeldi í sjó yrði bannað innan nokkurra ára.

Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi sagði

að „ef ég sæi enga þróun fyrir mér varðandi tækninýjungar í greininni þá gæti svarið verið já. En þar sem ég gerði ráð fyrir að að mjög margt mundi gerast á því sviði á næstu árum, væri svarið nei.“

Getum ekki stutt lokun

Í svari við fyrirspurn Bæjarins besta bætti Logi við:

„Sjókvíaeldi er risastór atvinnugrein. Hún veltir tugum milljarða, þetta eru hundruð starfa. Það hefur verið mikil lyftistöng fyrir Vestfirði og Austfirði og gert mikið fyrir brothættar byggðir. Við getum ekki stutt þá afdráttarlausu kröfu að sjókvíaeldinu verði bara lokað.

Það þarf að herða á kröfunum sem eru gerðar til fyrirtækjanna. Stórauka eftirlit og þyngja viðurlög. Framtíðarþróun og verðmætasköpun í greininni byggi á skýrum kröfum um sjálfbæra nýtingu með áherslu á traust eftirlit, vöktun og rannsóknir.“

DEILA