Hjördís Þráinsdóttir ráðin verkefnastjóri hjá Háskólasetri

Hjördís Þráinsdóttir hóf störf hjá Háskólasetri Vestfjarða sem verkefnastjóri í 50% stöðugildi þann 1. nóvember síðastliðinn. Hjördís hefur búið á Ísafirði í 25 ár en er frá Súðavík. Hún er gift og á 3 stráka og hefur starfað lengst af fyrir Ísafjarðarbæ sem skjalastjóri síðan 2008.Hún er með BA í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og leggur í dag stund á meistaranám í menntunarfræði M.Ed. auk diplómu í sérkennslufræðum frá sama skóla.

Hjördís hefur verið áberandi í tónlistarlífinu á Ísafirði. Hún er með framhaldspróf í einsöng frá Tónlistarskóla Ísafjarðar, er í kirkjukórnum, kvennakórnum og tveimur hljómsveitum; Rokkhundunum sem halda árlega rokktónleika á skírdag og Fagranesi sem spilar á böllum fyrir djammþyrsta, auk þess sem hún syngur í hinum ýmsu athöfnum.

DEILA