Leiðangursskipin: um 20 þúsund farþegar í sumar á 11 stöðum á Vestfjörðum

Ferðamenn á kajökum við Kirkjuból og Sauðfjársetrið í Tungusveit. Myndir:aeco

Með leiðangursskipum, sem eru minni skemmtiferðaskip, komu um 20 þúsund farþegar og fóru í land á 11 stöðum á Vestfjörðum samkvæmt upplýsingum sem Bæjarins besta hefur fengið frá samtökum þeirra skipa AECO.

Nafn samtakanna er á ensku The Association of Arctic Expedition Cruise Operators og í þeim eru skipafélög sem sérhæfa sig í ferðum á norðlægar slóðir, einkum með minni skemmtiferðaskipum og tiltölulega fáum farþegum. Um er að ræða heldur dýrari ferðir en með stóru skipunum og farþegarnir eru taldir eyða heldur meira í ferðum sínum.

Alls komu skip samtakanna við á 31 stað á Íslandi í sumar. Á Vestfjörðum voru viðkomustaðirnir 11 talsins. Flestir farþegar fóru í land á Ísafirði eða liðlega 6.000. Á Patreksfirði eða í Vesturbyggð voru þeir 4.559. Vigur var í þriðja sæti hvað fjölda varðar, en þangað fóru 2.738 farþegar af leiðangursskipunum. Að Dynjanda fóru 2.545 manns.

Aðrir staðir voru Bíldudalur með 90 farþega, Flateyri 196 manns, Bolungavík 160 farþegar og Reykjafjörður í Norður Ísafjarðarsýslu 218 manns.

Í Strandasýslu voru þrír viðkomustaðir. Til Djúpuvíkur komu 858 farþegar, Hólmavík 701 og flestir fóru í land við Sauðfjársetrið í Tungusveit eða 953 manns , en þangað komu þrjú skip Hurtigruten átta sinnum í sumar.

Settur er fyrirvari við fjölda farþega þar sem ekki hafa allar skýrslur borist og einhverjar tölurnar eiga því eftir að hækka.

Erlendir farþegar af leiðangursskipi í Sauðfjársetrinu í Strandabyggð.

DEILA