Hvatning Vestfirðinga til frambjóðenda til Alþingis

Alþingiskosningar eru á næsta leiti og líklegt er að við hittum, næstu 25 daga, frambjóðendur á förnum vegi. Þá er gott að vekja athygli á því að á Vestfjörðum er mikill uppgangur og margt hefur færst til betri vegar síðustu ár og jákvæð þróun er á mjög mörgum sviðum. Fleiri stoðir efnahagslífs hafa náð fótfestu og á Vestfjörðum varð til fyrsti og eini „einhyrningurinn“ á Íslandi, Kerecis. Sumir ganga svo langt að segja að á Vestfjörðum sé í gangi efnahagsævintýri vegna þeirrar sölu, þróunar fiskeldis og fleiri þátta.

Það er auðvitað fjölmargt sem mun bera á góma í samtölum við frambjóðendur en ég vil hvetja alla Vestfirðinga til að hafa eftirfarandi ellefu atriði í huga sem þarf að bæta úr til að tryggja áframhaldandi jákvæða þróun á Vestfjörðum.  

Sérstakur samgöngusáttmáli fyrir Vestfirði

Gerður verði sérstakur samgöngusáttmáli fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á samkeppnishæfan stall á næstu 10 árum. Í sáttmálanum væri sú jarðgangnagerð og vegabætur sem þarf til að stytta ferðatíma, auka umferðaröryggi og draga úr viðhaldsþörf.  Með sáttmálanum væri unnið út frá því að flýta framkvæmdum, finna nýjar leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti þannig að markmið næðust um öflugar heilsárstengingar innan og á milli atvinnusvæða á Vestfjörðum, öruggari samgangna frá öllum þéttbýlissvæðum og að stofnvegir frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða yrði að mestu láglendisvegir.  

Vetrarþjónusta – lengri opnunartími Vestfjarða

Sanngjörn vetrarþjónusta er eitt stærsta byggðamál fyrir Vestfirði þar sem núverandi reglugerð um vetrarþjónustu gerir að verkum að „opnunartími“ Vestfjarða er umtalsvert styttri en gengur og gerist á öðrum svæðum. Því þarf þjónustutími á Djúpvegi um Steingrímsfjarðarheiði og Ísafjarðardjúp, Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði, Múlasveit, Klettsháls og Reykhólasveit að vera samræmdur opnunartíma á Bröttubrekku og Þröskuldum. Einnig þarf að auka þjónustutíma milli byggðarlaga á sunnanverðum Vestfjörðum til samræmis við þjónustutíma á norðanverðum Vestfjörðum.

Ljúka framkvæmdum á Dynjandisheiði, Gufudalssveit og Strandavegi

Fjármagn verði tryggt til að ljúka við vegagerð á Dynjandisheiði, brúarsmíði yfir Gufufjörð og Djúpafjörð og til endurbóta og nýframkvæmda á Strandavegi norður í Árneshrepp og Innstrandavegi.  

Orkuframleiðsla fyrir orkuskipti

Fylgja þarf eftir skýrslum sem unnar hafa verið síðustu ár um orkumál á Vestfjörðum til að tryggja aukna orkuframleiðslu á svæðinu og jafnframt tryggja afhendingaröryggi á svæðinu með úrbótum á flutningslínum og dreifikerfi. Samhliða þarf að halda áfram með jarðhitaleit til hitunar íbúðarhúsnæðis og til atvinnustarfsemi. Næg raforka er forsenda allra orkuskipta hvort sem er í samgöngum á landi, í sjávarútvegi og atvinnustarfsemi.

Auðlindagjöld til sveitarfélaga

Á Vestfjörðum er mikil frumframleiðsla sem byggir á náttúruauðlindum svæðisins og hagkerfið mjög útflutningsdrifið. Auðlindagjöld á Íslandi byggja nánast eingöngu á gjaldtöku af nýtingu auðlinda sjávar, veiðigjald af sjávarútvegi og greiðslur fiskeldisins í umhverfissjóð sjókvíaeldis og fiskeldissjóð. Einungis þriðjungur af fiskeldissjóði rennur til sveitarfélaga á Vestfjörðum og Austurlandi í gegnum úthlutanir til eins árs í senn. Áherslu þarf að leggja á að breyta fiskeldissjóði í samfélagssjóð, hækka framlag til sveitarfélaga úr einum þriðja í tvo þriðju með beinum framlögum til fiskeldissveitarfélaga. Auka þarf fjármagn til rannsókna og eftirlits í nærumhverfi atvinnugreinarinnar.  

Skýr rammi í lagareldi, þörungarækt og kræklingarækt

Eftir mikið samráð og vinnu við mótun ramma fyrir lagareldi dagaði lagareldisfrumvarpið upp í þinginu síðasta vor. Frumvarpið var viðbragð við mjög neikvæðri skýrslu Ríkisendurskoðunar og mikillar gagnrýni á atvinnugreinina sjókvíaeldi og var ætlað að skýra lagaramma atvinnugreinarinnar og þróun til framtíðar. Skýr rammi þarf að vera til staðar í lagareldi þannig að sjálfbær uppbygging lagareldis geti orðið og þannig aukin verðmætasköpun í landinu.

Mikilvægt er einnig að stjórnvöld fylgi eftir stefnumótun í fiskeldi með úthlutun fiskeldisleyfa eftir því sem burðarþol fjarða leyfir. Fjármagn frá sölu fiskeldisleyfa verði nýtt til að fjármagna að hluta samgöngusáttmála fyrir Vestfirði. Sveitarfélög og fyrirtæki þurfa fyrirsjáanleika til að bæði verði til blómleg fyrirtæki og blómlegar byggðir.  

Ræktun á krækling er sjálfbær framleiðsla á hágæða fæðupróteini og um er að ræða atvinnuskapandi starfsemi sem byggst getur upp við strendur og í fjörðum víðsvegar um landið. Á Vestfjörðum eru víða góðar aðstæður til uppbyggingar á atvinnugreininni. Sérstaklega gefur ræktun á krækling tækifæri fyrir svæði þar sem mikil vöntun er á sjálfbærum atvinnutækifærum og eldi á laxi í sjókvíum er óheimilt. Mikilvægt er að tryggja uppbyggingu kræklingaræktar í samræmi við minnisblað frá þremur landshlutasamtökum, 16 sveitarfélögum og sex fyrirtækjum sem sent var fjárlaganefnd Alþingis í lok október sl.

Blómleg samfélög og menning

Fólki er að fjölga á Vestfjörðum og eftir langt tímabil fólksfækkunar hefur þróuninni víðast verið snúið við og framundan er uppbygging á breyttum forsendum. Mikilvægt er að hlúa að samfélaginu með inngildingu að leiðarljósi. Sérstakan gaum þarf að gefa lýðheilsu og farsæld barna á Vestfjörðum. Áskoranir eru fólgnar í fámenni sem birtast meðal annars í menntunarmöguleikum, heilbrigðisþjónustu og húsnæðisskorti sem hamlað hefur íbúa- og atvinnuþróun.

Lifandi menningarlíf er nauðsynlegt hverju samfélagi og hlúa þarf að grasrótarstarfi sem og faglegri lista og menningarstarfsemi um allt land, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Rannsóknir sýna að fátt er mikilvægara byggðafestu en öflugt menningarstarf og góðir afþreyingarmöguleikar.

Vestfjarðaleiðin – öflugri ferðaþjónusta

Ferðaþjónusta er orðin ein af stoðum atvinnulífs á Vestfjörðum. Enn er þó um mjög sveiflukennda starfsemi að ræða og mikilvægt er að lengja ferðamannatímabilið til að tryggja atvinnugreinina í sessi á svæðinu. Nú stendur yfir átak í vetrarferðaþjónustu og uppbygging ferðaleiðarinnar Vestfjarðaleiðar er samstarfsverkefni sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu. Nokkuð hefur verið rætt um þjóðgarð á Vestfjörðum og er líklegt að þjóðgarður myndi verða mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og hafa umtalsverð byggðaáhrif.

Húsnæðismál

Á flestum stöðum á Vestfjörðum er enn markaðsbrestur þegar kemur að byggingu nýrra íbúða og ekki hefur enn tekist þrátt fyrir aðgerðir stjórnvalda til úrbóta að koma byggingum af stað í þeim mæli sem þörf er á.  Enn er húsnæðisverð víðast hvar umtalsvert lægra en byggingarkostnaður nýrra íbúða. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga benda til þess að umtalsvert meiri þörf sé fyrir nýjar íbúðir á svæðinu en fyrirsjáanlegt er að verði byggt á næstunni. Finna þarf lausnir sem henta svæðinu betur en þær lausnir sem fram hafa komið til þessa.

Menntamál

Viljayfirlýsing mennta- og barnamálaráðherra og sveitarfélaga á Vestfjörðum var undirrituð síðasta vor og fjármagn til hönnunar er til staðar af hálfu sveitarfélaganna.  Brýnt er að ríkið hefji hönnun og framkvæmdir við nýtt verknámshús Menntaskólans á Ísafirði.

Jafnrétti til menntunar þarf að vera lykilatriði allt frá leikskóla til háskóla þar sem börn og ungmenni þurfa að eiga sama rétt til náms óháð búsetu. Leikskólar og grunnskólar eru á forræði sveitarfélaga en mikilvægt er að kröfum hins opinbera til þessara skólastiga fylgi tekjustofnar.

Umtalsverður aðstöðumunur er fyrir ungt námsfólk búsett á Vestfjörðum að sækja háskólanám annars vegar eða á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni hins vegar og mikill kostnaður fellur á námsmenn og fjölskyldur þeirra. Fjarnám þarf jafnframt að vera í boði frá Háskóla Íslands og öðrum ríkisstyrktum háskólum bæði á grunnstigi og framhaldsstigi.

Flutningsjöfnun úrgangs

Jafna þarf aðstöðumun sveitarfélaga í landinu varðandi meðhöndlun úrgangs og stjórnvöld þurfa að veita stuðning við uppbyggingu og rekstur úrvinnslukerfa eða jafna flutningskostnað úrgangs. Íbúar landsins eiga óháð búsetu að standa jafnt í því markmið að skapa skilyrði til hringrásarhagkerfis og trygga stjórnun úrgangsmála. Það er því mikilvægt að draga úr aðstöðumun dreifðra byggða sem staðsettar eru langt frá urðunar-, móttöku- og förgunarstöðum við þær byggðir sem eru í nálægð við slíka staði.

Þessi pistill er samantekt úr nýrri Sóknaráætlun Vestfjarða fyrir árin 2025-2029 og ályktunum 69. Fjórðungsþings Vestfirðinga sem haldið var á Laughóli í Bjarnarfirði 18-19. október sl. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða og ég treysti því að í samtölum við frambjóðendur bæti fólk við því sem helst vantar. Ég, og annað starfsfólk á Vestfjarðastofu, hlakka til samstarfsins við næsta hóp öflugra þingmanna næstu fjögur árin.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir
Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA