Komin er 40 ára reynsla á kvótakerfi okkar og undanfarin 33 ár hefur allur bolfiskur verið veiddur gegnum aflamarkskerfi. Sóknardagakerfi var aflagt árið 1991 og síðan þá hefur Hafró reiknað út leyfilegan þorskafla með mikilli nákvæmni – með minni skekkju en 1 tonn! Í stofnstærðarmati eru stuðlar um áætluð afföll frá fiskveiðum og af náttúrulegum orsökum. Óvissa er bundin við báða þessa þætti – sérlega þó náttúruleg afföll. Forsenda fiskveiðidánartölu byggir á réttu mati á stærð veiðistofns. Náttúruleg afföll er nær ógerlegt að mæla og því eru slík afföll sett sem fasti í reiknilíkön fiskifræðinga. Fyrir þorsk er settur stuðullinn 0,2 (M=0,2).
Afrán og sjálfrán eru stærstu þættir náttúrulegs dauða – minnihluti nytjastofna drepst venjulega úr elli. Fiskar í slöku næringarástandi, holdrýrir og fitumagrir, verða gjarnan bráð annarra fiska. Stærð fiska og aldur skiptir líka máli. Umfangsmikil gagnasöfnun Hafró sýnir að mikill breytileiki er í holdafari og lifrarstuðli þorska, sem staðfestir að aðgangur að fæðu sveiflast talsvert milli tímabila. Nýlega var birt skýrsla um fæðuval þorska og annara nytjastofna við landið. Loðna er aðalbráð þorsksins og nú birtast okkur upplýsingar um að loðnustofninn sé horfinn úr landhelginni. Áhrifin sjást í nýjustu tölum um meðalþyngd þorska, allir árgangar lækka í meðalþyngd nema þeir yngstu. Þessar staðreyndir hafa lítil áhrif á reiknilíkön Hafró enda eru afföllin fasti – óbreytanleg stærð. Jafnvel þótt hrygningarstofn þorsks hafi stækkað um nær helming undanfarinn áratug sjást þess engin merki í aukinni nýliðun. Áfram er haldið með sömu reiknilíkönin – þó að eitt sé alveg öruggt og það er að náttúruleg afföll eru ekki FASTI.
Allir eru sammála um að við umgöngumst fiskistofnana af virðingu, þannig að þeim sé ekki spillt til lengri eða skemmri tíma. Í þröngri skilgreiningu á virði auðlinda, talið í krónum og aurum, felast verðmæti í heildarafla og virði aflans. Ljóst má vera að lítil breyting í M hefur mikil áhrif á stærð veiðistofns – slíkar magntölur geta legið í tugum þúsunda tonna ef litið er til þorsksstofnsins. Fiskifræðingar geta ekki reiknað áhrif umhverfisbreytinga til skamms tíma í sín reiknilíkön. Áætla má að 5% skekkja í náttúrulegum afföllum (séu 0,19 en ekki 0,2) samsvari því að 10 þúsund tonn af þorski séu lifandi en ekki dauð! Dæmið gengur að sjálfsögðu í báðar áttir. Það er hrein oftrú á vísindalega hæfni eða hreinlega óskhyggja að segja að fiskveiðistjórnunarkerfið okkar sé það allra besta sem völ sé á. Það sem við þó vitum með fullri vissu er að áhrif fiskifræðinga á efnahag þjóðarbúsins er yfirþyrmandi mikil.
Enginn vafi er á því að kvótakerfið hefur bætt afkomu útgerða vegna betra skipulags á virðiskeðju afurða. Mögulega mætti fullyrða að kvótakerfið sé besta kerfið út frá rekstrarhagfræðilegu sjónarmiði. Þar með er þó ekki sagt að kvótakerfið skili þjóðarbúinu mestum auði. Það vitum við ekki nema hægt sé að fullyrða að kvótakerfið skili mestum heildarafla til lengri tíma litið, það getur enginn sannað.
Með upptöku sóknarkerfis við hlið kvótakerfisins væri mögulegt að uppfylla bæði rekstrarleg og þjóðhagsleg markmið og nýta þannig kosti beggja kerfa. Í ljósi mögulegs ávinnings fyrir þjóðarbúið er áhættan af því að veiða 10-20 % heildaraflans gegnum sóknarkerfi ásættanlegt að taka. Stærð veiðistofns skiptir miklu máli við mat á áhættu – og nú er kærkomið tækifæri til að gera breytingar á nýtingarstefnunni. Þorskurinn er þess utan langlíf skepna sem er styrkur þegar mæla á áhrif veiða. Sóknarkerfi má stýra með margvíslegum hætti, s.s. bátastærð, veiðafærum, tíma og svæðum. Fyrir utan að blandað fiskveiðistjórnarkerfi gæti skilað meiri heildarafla mun slík nýtingarstefna stórbæta upplýsingar um ástand, dreifingu og styrk yngri árganga, sem fullyrða má að skil sér ekki vel í aflatölur í dag.
Það er sárgrætilegt til þess að vita að á meðan innviðir samfélagsins grotna niður vegna fjárskorts er samfélagið mjög líklega að tapa milljörðum króna vegna vannýtingar á okkar dýrmætu fiskistofnum. Margoft hafa slíkar hugmyndir verið settar fram og jafnharðan slegnar út af borðinu. Ástæðan er jú okkar inngróna hugsun bundin kvótakerfinu. Andstaða virðist vera við upptöku sóknarkerfis þar sem aflinn yrði hrein viðbót en ekki hluti af reiknuðum úthlutuðum kvóta okkar alvitru og óskeikulu fræðinga. Annað sem skyggir á slíkar breytingar er leigukvótakerfið. Hvernig færi fyrir því?
Jón Örn Pálsson,
sjávarútvegsfræðingur M.Sc.