Ætlar að bíða eftir stefnumótunarnefndinni

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, ætlar að móta sína afstöðu til framtíðar fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þegar nefnd um stefnumótun í fiskeldi hefur lokið störfum og skilað niðurstöðu. Hún ætlar að horfa til þess hvernig fiskeldisfyrirtækin kynni áform sín um öryggiskröfur og mótvægisaðgerða vegna slysasleppinga. „Ég mun hlusta á rök fagaðila með og á móti fiskeldi í Djúpinu í ljósi hagsmuna svæðisins, umhverfisþátta og áhættu fyrir laxastofninn og lífríkið,“ segir Lilja Rafney.

Hún segir afstöðu sína til sjókvíaeldis vera þekkta. „Ég hef verið hlynnt  sjókvíaeldi að uppfylltum ströngum skilyrðum um að til að mynda sé horft til umhverfisþátta, fullkomins búnaðar og sátt við annað atvinnulíf og að eldi sé staðbundið,“ segir Lilja Rafney sem telur ekki rétt að sjá sig frekar um málið að svo stöddu en vonar að „skynsamleg niðurstaða náist í málið þar sem miklir hagsmunir liggja undir.“

Stefnumótunarnefndin á að skila sínum tillögum þann 15. ágúst.

smari@bb.is

DEILA