Ríkið sækir að erlendu skemmtiferðaskipunum

Fyrirhugað afnám tollfrelsis svokallaðra leiðangursskipa, sem eru erlend skemmtiferðaskip með fáum farþegum sem sigla hringinn um landið, um næstu áramót mun hafa áhrif á 53 skipakomur til Ísafjarðarhafnar miðað við tölur sumarsins að sögn Hilmar Lyngmó, hafnarstjóra. Þegar hefur eitt skipafélag afbókað allar komur til landsins sumrin 2025 og 2026 og tvö önnur eru tvístígandi.

Hilmar segir að tollfrelsið hafi verið tekið upp árið 2012 til þess að örva skipakomur þessara skipa til landsins og segja megi a það hafi virkað eins og til var ætlast. Í sumar komu leiðangursskip við á 31 stað á landsbyggðinni.

Afnám tollfrelsisins þýðir að skipin þurfa að greiða virðisaukaskatt af viðskipum innanlands svo sem olíukaupum og matvælum. Eftir því sem næst verður komist er ætlunin að framkvæmd verði vörutalning þegar skip kemur inn í landhelgina og aftur þegar það fer út úr henni. Hilmar segir að hins vegar liggi ekki fyrir hvernig eigi að framkvæma vörutalninguna.

Að sögn Hilmar eru tekjur Ísafjarðarhafna af leiðangursskipum um 10% af tekjum hafnanna af skemmtiferðaskipum en hins vegar séu tekjur ferðaþjónustuaðilanna hlutfallslega meiri þar sem farþegarnir á leiðangursskipunum eyða meiru í kaup á þjónustu en almennt.

Cruise Iceland vilja að afnámi tollfrelsis verði frestað til 1. janúar 2027 til að unnt verði að vinna að úrlausn þessa máls innan ramma laganna í samráði við samtökin, að undangengnu mati á efnahagslegum afleiðingum þess eins og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis mælti fyrir um í vor.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri.

2.500 kr. innviðagjald

Í haust voru kynnt ný áform ríkisstjórnarinnar um 2.500 kr. innviðagjald um næstu áramót á hvern farþega pr. dag sem erum borð í skemmtiferðaskipi. Talsmenn hafna landsins og þjónustuaðila skemmtiferðaskipa, Cruise Iceland hafa miklar áhyggjur af þessu gjaldi og leggjast gegn því og segja að ekkert bendi til þess að aðgerðin muni hafa jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu eða íslenskan efnahag. Hafa verði í huga að skipafélögin séu þegar búin að selja ferðir til landsins á næsta ári og geti því ekki mætt nýja skattinum í gegnum verðið á ferðinni. Stjórnvöld geti tekið upp innviðagjald en þá með hæfilegum fyrirvara þannig að gjaldið komi inn í verðlagningu ferðarinnar og þá sé fjárhæðin allt of há og er bent á að t.d. hafi gistináttagkald verið ákveðið 1.000 kr.

DEILA