Gríðarleg uppbygging hafa orðið í atvinnumálum á Vestfjörðum á síðustu árum. Það eitt og sér er mikið fagnaðarefni því án atvinnu er engin uppbygging. Áður en þessi atvinnuuppbygging fór á skrið voru innviðamál svo sem raforka, samgöngur heilbrigðisþjónusta og afhendingaröryggi raforku á svæðinu í miklum ólestri og í dag hafa þau mál lítið eða ekkert lagast.
Það var gleðiefni er Dýrafjarðargöng komust loks á dagskrá eftir langa bið á samgönguáætlun. Vegabætur um Gufudalssveit og Dynjandisheiði fóru loksins í framkvæmd en voru þó stöðvaðar í sumar vegna framúrkeyrslu við kostnað á framkvæmdum austur við Hornafjarðarfljót, í kjördæmi núverandi fjármálaráðherra. Aukakostnaður við að stöðva svona stórar framkvæmdir og flytja stórvirk vinnutæki burt af svæðinu um langan veg og meira að segja sum tæki flutt sjóleiðis er gríðarlegur. Og hvað svo?
Raforkumál á Vestfjörðum eru í miklum ólestri bæði afhendingaröryggi og orkuöflun. Máttleysi stjórnvalda í málaflokk þessum og yfirgangur svokallaðra umhverfis og náttúruverndarsinna hafa komið því til leiða að lítið sem ekkert hefur þokast áfram. Sú furðulega staða er uppi að sáttin um varaaflið sem knúið er með dísel olíu finnst friðunnarsinnum ásættanleg nú mitt í allri umræðunni um loftlagsmál.
Virkjanakostir á Vestfjörðum í Vatnsfirði og við Hvalá mjakast lítið áfram og hefur mér fundist stjórnvöld sýna lítinn kjark og þor í að koma þeim brýnu verkefnum áfram.
Heilbrigðisþjónusta út á landsbyggðinni er ekki neinu samræmi við þær þarfir sem við sættum okkur við nú til dags. Þessi staðreynd á ekki síst við á Vestfjörðum. Stjórnvöld verða að móta stefnu í þessum málaflokk og í samráði við heilbrigðisyfirvöld. Hvatar til að t.d læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk sækist eftir að vinna út á landi er kostur sem ætti að ráðast í af stjórnvöldum. Þessi aðferð er notuð t.d í Noregi.
Dugnaður, vinnusemi og hreinskilni íbúa á Vestfjörðum hefur alltaf heillað mig. Grjótharðir sjósóknarar og barátta við óblíð náttúruöflin er Vesfirðingum í blóð borin. Því hef ég kynnst sjálfur hafandi á stundum stundað sjósókn fyrir vestan. Ég veit að langlundargeði eru takmörk sett og það á líka við um íbúa Vestfjarða.
Að stjórnvöld hafi það í stefnuskrá sinni að leitast sé við að allir Íslendingar, hvar sem er á landinu búi við að orkumál, samgöngur og heilbrigðisþjónusta sé til jafns á öllu landinu á að vera sjálfsagt jafnréttismál. Það er á stefnuskrá Miðflokksins. Áfram Ísland!
Sigurður Páll Jónsson.
Varaþingmaður og þriðji maður á framboðslista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.