Málverk af Einari K. Guðfinnssyni, fyrrverandi forseta Alþingis, var afhjúpað í Smiðju, nýbyggingu Alþingis, 1. nóvember að viðstöddum forseta Alþingis Birgi Ármannssyni, Einari, fjölskyldu hans, vinum, þingmönnum og fyrrverandi og núverandi starfsfólki á skrifstofu Alþingis. Stephen Lárus Stephen listmálari málaði myndina og verður henni komið fyrir í efrideildarsal Alþingis.
Einar K. Guðfinnsson var forseti Alþingis frá vorinu 2013 til haustsins 2016. Einar tók fyrst sæti sem varaþingmaður árið 1980 og 11 árum síðar, í þingkosningunum 1991, náði hann kjöri sem alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem þriðji þingmaður Vestfjarða og tók sæti í neðri deild. Eftir kjördæmabreytinguna 2003 var hann þingmaður Norðvesturkjördæmis. Einar Kristinn sat á 31 löggjafarþingi í 25 ár, allt til haustsins 2016 þegar hann lét af þingmennsku að eigin frumkvæði.
Einar gegndi embætti varaformanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins á níu löggjafarþingum og var formaður þingflokks 2003–2005, þar til hann tók sæti í ríkisstjórn. Hann var sjávarútvegsráðherra 2005–2007, tók þá samhliða við embætti landbúnaðarráðherra og varð svo fyrsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrann eftir sameiningu ráðuneytanna, árin 2008–2009.