Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í vikunni tillögu fjármálaráðuneytisins um að afnema tollafrelsi hringsiglinga skemmtiferðaskipa frá og með 1. janúar 2025. Jafnframt var lagt fram erindi Cruise Iceland til fjármála- og efnahagsráðherra og ályktun stjórnar Cruise Iceland, dags. 25. og 27. september, vegna málsins.
Þá var lögð fram umsögn Cruise Iceland vegna frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl. sem fylgir fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.
Ráðueytið leggur til að tekið veði upp nýtt gjald, innviðagjald upp á 2.500 ISK á hvern farþega á skemmtiferðaskipi fyrir hvern byrjunardag sem skip dvelur við Ísland.
Landsbyggðaskattur
Í umsögninni segir að verði „innviðagjaldið lagt á með þessum hætti mun það líklega hafa miklar afleiðingar fyrir starfsemi skemmtiferðaskipa við Ísland. Þetta skapar sérstaka áhættu fyrir minni
samfélög á landsbyggðinni sem reiða sig að miklu leyti á tekjur frá skemmtiferðaskipum og er í raun landsbyggðarskattur.“
Þá segir að heildarfarþegafjöldi þeirra sem koma til Íslands í tengslum við skemmtiferðaskip hafi verið 315 þúsund talsins á síðasta ári, sem gerir um 12-14% af öllum farþegum sem til Íslands koma. Siglt er með þessa ferðamenn hringinn í kringum landið og því eru innviðir landsins takmarkað nýttir af skipunum.
tekur undir tillögur Cruise Iceland
Bæjarráðið bókaði að það legði áherslu á að móttaka skemmtiferðaskipa er hlutfallslega mjög mikilvæg fyrir Vestfirði. Bæjarráð tekur undir áhyggjur Cruise Iceland og leggur til við Alþingi að hafa til hliðsjónar þær tillögur sem Cruise Iceland leggur til í lok umsagnar þeirra, en lagst er gegn álagningu innviðagjalds á skemmtiferðaskip, en verði svo gert með þessum stutta fyrirvara að gjaldið verði að hámarki kr. 500 pr. farþega árið 2025, að innleitt verði gagnsætt kerfi hækkana fyrir 2026-2028, viðhalda gjaldtöku í samræmi við tillögu stjórnvalda til að draga úr skrifræði, og undanskilja gjaldtöku á bókanir sem gerðar voru fyrir 31. desember 2024.