Hrun í innviðafjárfestingu eftir hrunið 2008

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerrecis í ræðustól á Fjórðungsþingi Vestfirðinga í Bolungavík í fyrra.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis og formaður Innviðafélags Vestfjarða vekur athygli á því í aðsendri grein í Mrgunblaðinu í gær að eftir hrun viðskiptabankanna hafi orðið hrun í innviðafjárfestingu hins opinbera.

Birtir hann línurit sem sýnir að á árunum fyrir hrun hafi fjárfestingin verið 1,25% – 2% af vergri landsframleiðslu en eftir hrun hafi það verið 0,3% – 0,5%. Línuritið nær til ársins 2021.

Landsframleiðslan á þessu ári verður nálægt 4500 milljarðar króna svo hvert prósent er um 45 milljarðar króna.

Lætur nærri að fjárfestingin hafi fallið um 3/4 samkvæmt línuritinu. Á hverju ári er það því um 30 milljarðar króna sem vantar í innviðafjárfestinguna og á 10 ára tímabili má ætla að niðurskurðurinn nemi um 300 milljörðum króna.

Segir Guðmundur Fertram í greininni að stjórnvöld hafi skort kjark og hafi því safnað upp innviðaskuld.

Á Vestfjörðum hafi síðustu ár orðið efnahagslegt ævintýri, einkum með tilkomu Kerecis og laxeldisins sem skapi miklar tekjur fyrir hið opinbera. Til þess að styðja við áframhaldandi vöxt á Vestfjörðum þurfi samgöngubætur sem hann nefnir Vestfjarðalínu:

„Áframhald á efnahagsævintýri Vestfjarða byggist á atvinnufrelsi og styrku rekstrarumhverfi, en ekki síst bættum samgönguinnviðum. Framtíðarsýn samgöngubóta höfum við kallað „Vestfjarðalínuna“, en í henni felst gerð láglendisvegar sem tengir atvinnusvæði á Vestfjörðum við hringveginn. Vestfjarðalínan er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði um fjármögnun og öflugar framkvæmdir á kjörtímabilinu.“

DEILA