Almannavarnarnefnd: vill meira öryggi í Vestfjarðagöngum og þar með breikkun þeirra

Vestfjarðagöng. Munninn í Breiðadal.

Sameinuð almannavarnarnefnd Súðavíkur og Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum á þriðjudaginn málsatvik rútubruna, sem varð fyrir neðan Vestfjarðagöngin Skutulsfjarðarmegin þann 13. september 2024 og skapaði hættuástand vegna elds.

Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri, fór yfir málavöxtu, viðbúnað slökkviliðs og verkefni.

Nefndin bókaði eftirfarandi:

„Sameinuð almannavarnanefnd Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps lýsa yfir áhyggjum af öryggi vegfarenda í Breiðadals- og Botnsheiðargöngum ef hættuástand skapast og til björgunaraðgerða kemur. Nefndin skorar á Vegagerðina og ríkisstjórn að bæta öryggi í göngunum án tafar, s.s. með ljósastýringu, útvarps- og símasambandi, betri lýsingu og breikkun ganganna. Nefndin bendir á að ekki er um aðra leið að ræða á svæðinu vegna aflagningar vega yfir heiðarnar. Stórbruni í langferðabíl rétt við gangnamunna í Tungudal í september 2024 endurspeglar áhyggjur nefndarmanna frá opnun ganganna árið 1996.“

DEILA