Ferðafélag Ísfirðinga hélt ljósmyndasamkeppni. Valdar voru þrjár ljósmyndir af þeim myndum sem bárust inn á Fésbókarsíðu félagsins úr ferðum ársins 2024.
Verðlaunaafhending fór fram í Edinborgarhúsinu þriðjudaginn 29. október 2024.
Verðlaunahafarnir eru Eggert Stefánsson, Anastasija Voloshchenko og Helgi Elíasson.
Dómnefndina skipuðu Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Ómar Smári Kristinsson og Valdimar Ingi Gunnarsson. Þau rökstuddu val vinningsmyndanna svo:
Þriðju verðlaun (5.000 kr.) hlýtur Helgi Elíasson fyrir mynd sem hann tók í óvissuferðinni, 14. september. Þá leiddi Barði göngufólk að fossum í landi Seljalands í Álftafirði. Í myndinni er nálægð og fjarlægð teflt skemmtilega saman. Formin í landslaginu leiða augað beina leið frá skugga ljósmyndarans að fólkinu sem hann myndar.
Önnur verðlaun (10.000 kr.) falla í skaut Anastasiju Voloshchenko. Sú mynd var einnig tekin í ferðinni 14. september. Tært loft og fallegir litir skiluðu mörgum góðum myndum þann daginn. Í þessari mynd njóta litir og form sín vel í sterkri myndbyggingu þar sem ljósum og dökkum flötum er raðað saman í gott jafnvægi.
Verðlaunamyndina í ár tók Eggert Stefánsson. Fyrir hana hlýtur hann 20.000 kr. Myndina tók hann hjá fossinum Ósóma í ferð um Ingjaldssand, 15. júní. Systurnar Halla Signý og Helga Dóra leiddu þá ferð. Eggert fangaði vel stemmninguna á þessum athyglisverða stað: gleði, forvitni og ævintýramennsku. Myndinni er skipt í tvennt af fossinum. Tveir myndhelmingar mynda eina mynd og þar á milli er eitthvað spennandi að gerast, eins og algengt er á mörkum milli heima.