Silfurtorg: samstöðufundur kennara í gær

Frá Silfurtorgi í gær.

Kennarar á Vestfjörðum stóðu fyrir samstöðufundi á Silfurtorginu á Ísafirði í gær. Viltu kennarar árétta að vandað væri til orðræðu um starf kennara og beindu máli sínu til sveitarstjórnarfólks.

Guðný Stefanía Stefánsdóttir, kennari á Ísafirði las upp yfirlýsingu og afhenti Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra og Gylfa Ólafssyni, formanni bæjarráðs.

Yfirlýsingin:

Undirrituð, fulltrúar kennara og stjórnenda á Vestfjörðum, skora á sveitarstjórnarfólk að vanda orðræðu um kennara. Á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga kom fram neikvæð orðræða í garð kennara sem fékk undirtektir fundargesta.
Stórt verkefni er framundan sem er að tryggja öllum börnum vel menntaða kennara en skólarnir standa nú frammi fyrir stöðugt vaxandi mönnunarvanda, jafnt á meðal kennara sem stjórnenda.
Til að laða fólk í kennslu á ný þarf að setja menntamál á oddinn á Vestfjörðum og tala af virðingu um kennarastarfið. Afar mikilvægt er að kennurum standi til boða samkeppnishæf laun og því er brýnt að leysa kjaradeiluna sem fyrst og jafna þar með laun á milli markaða.
Vinna þarf að bættum starfsaðstæðum kennara en verkefnafjöldi á herðum þeirra hefur aukist hratt á liðnum árum. Á sama tíma er fjöldi nemenda á hvern kennara víða of mikill.
Tryggja þarf að skólahúsnæði sé öruggt og heilsusamlegt. Mörg dæmi eru um það víðs vegar um landið að rakaskemmdir og mygla hafi ógnað heilsu kennara og nemenda.
Undirrituð árétta mikilvægi þess að sveitarstjórnarfólk sem veitir bæjarfélögum á Vestfjörðum forystu tali ætíð á jákvæðan og uppbyggilegan hátt um kennara jafnt á opinberum vettvangi sem annars staðar og leggi sig fram við að setja sig inn í skólamál og starfsaðstæður skólafólks.
Við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta og viljum að á Vestfjörðum séu fagmennska og gæði ríkjandi í öllu skólastarfi. Fjárfestum í kennurum.

Virðingarfyllst,
Jóhanna Ása Einarsdóttir, formaður Kennarasambands Vestfjarða.
Erna Höskuldsdóttir, formaður Skólastjórafélags Vestfjarða.
Gerður Einarsdóttir, formaður 4. deildar félags leikskólakennara, Vestfjarðadeild.
Helga Björk Jóhannsdóttir, fulltrúi í samráðsnefnd FL á Vestfjörðum.
Margrét Skúladóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara í Menntaskólanum á Ísafirði.

Guðný Stefanía ræðir við forsvarsmenn Ísafjarðarbæjar.

Myndir. Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA