Djúpið: meiri laxveiði en í fyrra

Við Hvannadalsá er nýtt og glæsilegt veiðihús. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Laxveiði í Hvannadalsá og Langadalsá var mun betri í ár en í fyrra. Í Langadalsá veiddust 113 laxar en þeir voru aðeins 53 í fyrra. Í Hvannadalsá veiddust 80 laxar en 15 laxar í fyrra.

enginn eldislax

Sigurður Marinó Þorvaldsson var nokkuð sáttur við sumarið, en sagði það hafa verið kalt. Aðsókn hafi verið ágæt og hafi greinilega aukist í Hvannadalsá með tilkomu á nýju veiðihúsi. Sigurður segir að enginn eldislax hafi komið í árnar í sumar, en auðvelt að fylgjast með því þar sem svokallaður árvaki er í árósnum.

Ekki er að finna í yfirliti Hafrannsóknarstofnunar upplýsingar um veiði í Laugardalsá, sem Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur á leigu, en í fyrra veiddust þar 82 laxar.

Bráðabirgðasamantekt Hafrannsóknastofnunar sýnir að heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var um 42.400 fiskar, sem er um 30 % aukning frá árinu 2023 og um 2% undir meðalveiði áranna 1974 – 2023. Veiðin 2024 var um 9.700 löxum meiri en hún var 2023. Aukning var í veiði í ám í öllum landshlutum .

Í tölum um heildarlaxveiði eru taldir villtir laxar, laxar sem upprunnir eru úr sleppingum gönguseiða og einnig þeir laxar sem er sleppt aftur í stangveiði (veitt og sleppt). Laxveiði í ám sem byggja veiði á sleppingum gönguseiða var alls um 7.300 laxar sem er um 300 löxum minna en veiddist 2023 þegar 7.061 lax veiddist.

Heildarstangveiði villtra laxa árið 2024 var um 35.000 laxar, sem er um 36% aukning frá 2023. Þrátt fyrir aukningu á milli ára þá er veiðin á árinu 2024 undir meðalveiði og hefur verið það síðustu 9 árin, segir í samantekt Hafrannsóknarstofnunarinnar.

Uppfært kl 13:24. Veiðin í Laugardalsá var 124 laxar samkvæmt upplýsingum Stangveiðifélagsins.

DEILA