Endurskoðuð aðalnámskrá birt

Endurskoðuð aðalnámskrá grunnskóla hefur tekið gildi. Með breytingunum er verið að bregðast við ákalli skólasamfélagsins um endurskoðun hæfniviðmiða í þeim tilgangi að gera aðalnámskrána aðgengilegri og auðvelda kennurum að nýta hana í daglegu skólastarfi.

Aðalnámskrá kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs í grunnskóla, setur viðmið um nám og kennslu barna í skyldunámi og er leiðarvísir grunnskólakennara og skólastjórnenda um inntak og skipulag menntunar.

Endurskoðuð greinasvið aðalnámskrár grunnskóla, kaflar 17–26, eru birtir í Stjórnartíðindum. Endurskoðunin var unnin á árunum 2022–2024 á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, áður Menntamálastofnun, með þátttöku um 40 kennara og skólafólks. Hún byggir á úttekt mennta- og barnamálaráðuneytisins frá árinu 2020 en einnig víðtæku samtali við skólasamfélagið, ábendingum frá sveitarfélögum og fræðimönnum og samfélags- og tæknibreytingum síðustu ára. Endurskoðunin miðar að því að einfalda og skýra hæfniviðmið námskrárinnar, auk þess að auka samræmi milli ólíkra greinasviða.

Nokkrar nýjungar líta dagsins ljós í þessari endurskoðun og sem dæmi má nefna að hæfniviðmið um forritun og fjármálalæsi eru nú hluti af aðalnámskrá auk kafla um borgaravitund. Þetta eru mikilvægar nýjungar sem endurspegla breytt samfélag og nýjar áherslur.

Endurskoðuð aðalnámskrá öðlast þegar gildi og reiknað er með að grunnskólar hafi innleitt hana í nám og kennslu við upphaf næsta skólaárs.

DEILA