Ný bók um Atlantshafsþorskinn

Á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar er sagt frá útkomu bókarinnar Líffræði og vistfræði Atlantshafsþorsks (e. Biology and Ecology of Atlantic Cod) á vegum vísindaútgáfunnar CRC Press.

Dr. Ingibjörg G. Jónsdóttir sjávarvistfræðingur á Hafrannsóknastofnun er meðal ritstjóra og höfunda bókarinnar en einnig koma fjórir aðrir sérfræðingar stofnunarinnar að skrifum tveggja kafla. Annars vegar að fimmta kafla bókarinnar sem ber heitið Íslenski þorskstofninn (e. Icelandic cod stock) og hins vegar tíunda kafla bókarinnar um samanburð mismunandi þorskstofna (e. Comparisons of the Atlantic cod stocks: Biology, fisheries, and management). Auk Ingibjargar koma Christophe Pampoulie, Einar Hjörleifsson, Jacob Kasper og Jón Sólmundsson, sem öll eru starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, að skrifunum.

Bókin veitir greinargott yfirlit um líffræði og vistfræði þorsks. Í sjö köflum er farið ítarlega yfir stöðu mismunandi þorskstofna í N-Atlantshafi þar sem einblínt er á grunnþekkingu viðkomandi stofns. Í hinum þremur köflum bókarinnar er farið ítarlegar yfir áhrif loftslagsbreytinga á þorskstofna, fæðuvistfræði þorsks og samanburð mismunandi þorskstofna.

Alls leggja 27 vísindamenn hönd á plóg við ritun bókarinnar.

DEILA