Einn, tveir, þrír- Áfram Framsókn

Nú er búið að stilla upp lista hjá Framsókn í Norðvesturkjördæmi. Ég skipa þriðja sæti listans á eftir Stefáni Vagni í fyrsta og Lilju Rannveigu í öðru. Ég er að ljúka öðru kjörtímabili mínu sem þingmaður á Alþingi og stefni á það þriðja.

Það hefur verið ánægjulegt og krefjandi að starfa á þeim vettvangi frá haustinu 2017. Þessi ár hafa verið viðburðarrík og margt hefur gerst í lífi þjóðar. Við höfum upplifað bæði erfiða og skemmtilega tímar. Ég hef ekki þó aldrei misst fókusinn af stefnu Framsóknar, og aldrei sem nú er mikilvægt að leggja áherslu á jöfnuð, jafna dreifingu þjónustu og trausta innviði. Það er mikilvægt að horfa til sterkra gilda Framsóknar fyrir sterkt samfélag. Á þessum tveimur kjörtímabilum tel ég að við höfum þokast í rétta átt með fram því að takast á við stór verkefni.

Öryggi og byggðafesta

Við þurfum að standa saman og vinna að heildrænni lausnum. Verkefnin framundan eru mörg og þau kalla á samvinnu, framsýni og þrautseigju. Með sterkri innviðaþróun, samfélagslegri ábyrgð og samheldni munum við byggja upp betra Ísland fyrir komandi kynslóðir. Áfram er leiðarljós Framsóknar að tryggja áframhaldandi framþróun á þessum sviðum.

Samgöngur í fyrirrúmi

Í samgönguáætlun frá 2020 var lögð áhersla á að byggja upp samgöngur á Vestfjörðum. Það hefur sannarlega verið staðið við það þótt nokkrir áfangar séu eftir. Frá árinu 2017 hafa nær 30 m.a. kr. verið lagðir í vinnu á Vestfjörðum. Allt frá vinnu við Dýrafjarðargöng, Dynjandisheiðina til uppbyggingu vega í Gufudalssveitinni. Þá má telja endurbætur á brúm, í Álftafirði, Önundarfirði og Tálknafirði. Endurbætur voru gerðar í 7. km kafla í Ísafjarðardjúpi á árinu 2019. Þegar þetta er skrifað eru tvær brýr sitt hvorum megin við Klettsháls og þverun Gufu- og Djúpafjarðar langt komnar í vinnslu.

 Þessar framkvæmdir síðustu 7 ár eru meiri en við á Vestfjörðum höfðum séð í áratugi. Þær voru löngu tímabærar og enn eru mörg verkefni sem þurfa að komast í framkvæmd, s.s. jarðgöng og vegabætur. Veiðileysisháls var á samgönguáætlun 2020 en hefur ekki komist í framkvæmd. Einnig er löngu kominn tími á vegabætur á Innstrandavegi.

Ásamt þessu eru samgöngur á milli byggðakjarna á sunnanverðum Vestfjörðum yfir fjallvegi, sem eru erfiðir á veturna og núverandi vegir eru engan veginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er. Þá hefur Bíldudalsvegur verið álitin ónýtur þrátt fyrir endurbætur á veginum yfir Mikladal, sem var þó einungis bútasaumur. Samgöngubætur á Vestfjörðum eru ekki aðeins spurning um öryggi, heldur einnig um framtíð byggðanna. Að tryggja greiðar og öruggar samgöngur er lykillinn að því að styðja við atvinnulífið og byggðafestu.

Áfram skal halda

Hvað brennur á Vestfirðingum? Vissulega eigum við það sameiginlega markmið sem þjóð að viðhalda velferð allra með jöfnun grunnþjónustu um allt land. Það er sanngjarnt þar sem fjórðungurinn tekur að fullu þátt í þeim meginstoðum efnahagslífsins sem viðheldur velferð okkar, þ.e. fiskeldi, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Þess vegna eigum við að búa við þær aðstæður að innviðir okkar standi undir því að halda því flæði stöðugu.

Árið 2017 þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun um orkuskipti var samþykkt á Alþingi. Þar er vörðuð leið með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa. Með orkuskiptum verði enn fremur stuðlað að aukinni nýsköpun og sjálfbærri þróun. En staðreyndin er sú að til þess að hægt sé að fara í orkuskipti af alvöru á okkar svæði þá vantar rafmagn. Það verður að auka raforkuframleiðslu og bæta flutningsgetu inn á svæðið. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta eigi sér stað. Án þess getur fjórðungurinn ekki tekið þátt í að ná loftlagsmarkmiðum stjórnvalda né standa undir þeirri ábyrgð að viðhalda heilbrigðum efnahag landsins.

Verkefni í vinnslu

Nú er blásið til kosninga og það eru næg verkefni. Stærsta verkefnið á komandi misserum verður að stuðla að áframhaldandi lækkun á verðbólgu og vaxtastigi. Há verðbólga er tilkomin af ýmsum ástæðum. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu komu af stað snjóbolta sem hleður utan á sig, ofan gefur snjó á snjó.

Framsókn er sterkt afl á miðju stjórnmálanna, sem hefur gengið í verkin af ábyrgð og án upphrópana. Kannanir síðustu mánuði sýna að aukin áhersla er til hægri, sem er sorgleg staðreynd. Við verðum að slá á öfga í samfélaginu og ljá skynsemisröddinni sviðið. Hún er, eins og alltaf, rödd framtíðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Undirrituð er þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi og í framboði til Alþings í komandi kosningum.

DEILA