Pólutískar hugleiðingar öryrkja

Það eru ótrúlega margir sem segjast ekki fylgjast með pólutík – segjast ekki hafa vit á henni og að hún sé leiðinleg.

Ábyrgðarleysi segi ég því nánast daglega er verið að taka ákvarðanir á Alþingi sem varða líf okkar allra í stóru sem smáu.

Allt skiptir máli – líka það sem kann að þykja léttvægt í augum einhverra – eins og til dæmis það að svipta eldri borgara sem dvelja erlendis persónuafslætti og að gera bílastæði við Háskóla Ísland gjaldskyld. Svona ákvarðanir geta skipt sköpum í lífi margra.

Á  Alþingi eru líka teknar stórar ákvarðanir er varða auðlindir þjóðar, auðlindagjöld, nýtingarétt og um einkavæðingu og sölu á arðbærum ríkiseigum. Það er því mikið ábyrgðarleysi að kynna sér ekki stefnur, viðhorf og vilja framboðanna í þessum mikilvægu málum sem varða þjóðarhag áður en gengið er til kosninga.

Fólk dismast yfir ástandinu í þjóðfélaginu – yppir svo bara öxlum og segir að svona sé þetta bara og ekkert við því að gera. Já, einmitt þetta er svona af því að fólk fylgist ekki með og veitir stjórnvöldum ekki aðhald – sem er nauðsynlegt.

Ég veit að Alþingi íslendinga er hræðilega leiðinleg samkoma – eiginlega eins og messa á hráslagalegum sunnudegi þegar enginn hefur nennt til kirkju.

Siðareglur Alþingis eru líka mjög strangar – svolítið gamaldags og snobbaðar – eins og í einkareknum breskum yfirstéttaskóla. En það er hægt að kynna sér hvað kjörnir fulltrúar eru að bralla eftir ýmsum leiðum. Best að gera það með opnum hug, treysta á eigin dómgreind sé hún til staðar og forðast heilaþvott.

Alþingi á ekki að vera nein halilújasamkoma  þó nauðsynlegt sé að hafa þar réttlætið og kærleikann að leiðarljósi við ákvarðanatökur er varða alla hér á fróni.

Það hefur farið mikill tími hjá fráfarandi ríkisstjórn í að ræða þingsköp – kannski á flótta undan umræðu sem sumir hafa síður viljað taka. Alþingi er staður þar sem skiptar skoðanir eiga að takast á – með beinskeittum hætti og raust ef þurfa þykir því undir er ekkert minna en lífsafkoma okkar allra sem hér búum.

Íslenskir stjórnmálamenn eru gjarnir á að vísa til annarra þjóða í samanburði þegar vandamálin eru til umræðu – svona til að gera íslensku vandamálin léttvægari og til að reyna að draga yfir eigið hrópandi ábyrgðarleysi – samanburðinum er svo síður flaggað þegar hallar á vora þjóð.

Íslenskir ráðamenn virðast líka hafa ríkari vilja til að tileinka sér ósiði annarra þjóða fremur en það sem heilbrigð skynsemi myndi kvitta undir með glöðu geði.

Sem dæmi þá erum við með þriðju þyngstu vaxtabyrgði í heimi – aðeins Rússland og Úkraína eru með hærri vexti – stríðandi þjóðir.

Hins vegar ef litið hefði verið til Sádi-Arabíu sem við kokhraust köllum bananalýðveldi sem fyrirmynd hvað varðar skiptingu á arði auðlinda þá sæti þjóðin að líkindum ekki í vaxtaskuldasúpu í dag.

Í Sádi-Arabíu rennur 80% af arði olíuauðlinda þeirra í ríkiskassann – en á Íslandi er þessu öfugt farið. Arðurinn af sjávarauðlind þjóðarinnar rennur að mestu í vasa stórútgerðarinnar – eða um 80% – aðeins um 12-15% skilar sér í ríkissjóð.

Skýringarnar sem gefnar hafa verið á þessari gjafastefnu eru þær að það sé svo kostnaðarsamt að viðhalda togaraflotanum og vinnslulínunum – útgerðin þurfi að fylgjast vel með nýjungum í greininni eigi hún að vera samkeppnisfær á erlendum mörkuðum – en andskotakornið það getur ekki verið kostnaðarsamara að viðhalda togurum heldur en olíuborpöllum.

Hugsið ykkur að í bananalýðveldinu Sádi-Arabíu þarf fólk ekki að greiða skatt – né heldur sorphirðugjald,kílómetragjald, vegtolla, skoðunargjald, bílastæðagjald, kirkjugarðsgjald, útvarpsgjald, komugjald og þá heldur ekki útsvar – en við hér á djöflaskerinu þurfum að standa skil á þessu öllu og þá eru þjónustugjöld bankanna ótalin.

Það má vera deginum ljósara að flestar þær ríkisstjórnir sem setið hafa við völd í gegnum tíðina í umboði þjóðarinnar hafa brugðist skyldum sínum – annað hvort af ásetningi eða sökum vanhæfni. En það má örugglega undanskilja eina – Nýsköpunarstjórnina sem leidda var af hugsjónamönnunum og mannvinunum Einari Olgeirssyni og Ólafi Thors.

Það er því nauðsynlegt að ígrunda vel áður en atkvæðum er úthlutað – sennilega aldrei meiri þörf en nú.

Það er ekki nóg að kynna sér stefnur flokkanna því þráin eftir ráðherrastólum getur hæglega máð út metnaðarfullar stefnur og fögur fyrirheit á augabragði – það er því nauðsynlegt að líta einnig til þeirra sem skipa efstu sæti listanna og kynna sér fyrir hvað það fólk stendur.

Við þekkjum það af reynslunni að það getur verið varasamt að afhenda sérhagsmunaöflum mikil völd – öflum sem geta komist þau í aðstöðu til svipt okkur sjálfsákvöðrunarrétti í viðkvæmum persónulegum málum í nafni almannahagsmuna – þó skiptar skoðanir séu um gagnsemi og deildar meiningar um afleiðingar.

Ég veit ekki hversu oft ég hef heyrt stjórnarliða á síðustu misserum fullyrða að allir hafi það svo gott á Íslandi og að hvergi sé betra að búa. Við vitum flest að þetta er ekki rétt og ég er nokkuð viss um að svona yfirlýsingar eru eins og blaut tuska í andlit þeirra sem eru að strögla í sárri fátækt. Þær eru ekki hughreystandi – síður en svo því þær segja að ráðamenn telji enga  ástæðu til breytinga – svona fullyrðingar gætu því jafnvel slitið síðasta hálmstráið hjá einhverjum með skelfilegum afleiðingum.

Depurð, kvíði og þunglyndi hanga yfir landinu eins og þrumuský – algengasta orsök þessara meina eru afkomuáhyggjur. Æskilegt er því að frambjóðendur upplýsi kjósendur og þá ekki síst þá sem eiga um sárt að binda vegna skorts hvernig þeir hafi hugsað sér að ráða bót á – þá með einhverju öðru en gleðipillum – sem í mörgum tilfellum hafa skapað fleiri vandamál en leyst – þar sem þeim hefur verið mjög svo frjálslega úthlutað. Ég veit að geðlyf geta verið hjálpleg í mörgum tilfellum – en öllu má ofgera.

Geðlyf leysa ekki vandamál sem utanaðkomandi aðstæður hafa skapað og það er algerlega óásættanlegt að þröngva þeim upp á fólk svo fyrra megi aðra ábyrgð og reyna þannig að svæfa réttlætiskennd þess.

Við hljótum að gera kröfu um réttlátari skiptingu lífsgæða svo allir hér megi lifa við mannsæmandi kjör – það myndi leysa mörg vandamál og létta á heilbrigðiskerfinu sem og félagsþjónustunni.

Stór hluti þjóðarinnar lifir ekki af launum sínum í dag – ráðamenn verða að horfast í augu við þennan veruleika – það er ekkert grín að standa frammi fyrir því að geta ekki fætt börnin sín og klætt og svo kannski búandi í ótryggu húsnæði ofan á allt annað.

Margir búa við kúgun og ofríki launagreiðenda og leigusala – eru eiginlega dæmdir í stofufangelsi upp á núðlur og fransbrauð – sviptir fjárhagslegri getu til að taka þátt í félagslegri afþreyingu samfélagsins – já, og dæmdir frá jólatilhlökkun og. gleði og öllu öðru því sem veitir birtu og yl inn í hversdagslíf þeirra sem betur eru settir.

Fæði, klæði og öruggt húsnæði eiga ekki að vera forréttindi þeirra efnameiri heldur sjálfsögð mannréttindi allra að njóta.

Um mannréttindi þarf að standa vörð alla daga og gæta þess að þau séu ekki fótum troðin í samfélagi okkar – réttlætið til að mynda á ekki bara að vera þeirra sem keypt geta sér „sannleikann“ – tjáningar og ritfrelsið á heldur ekki bara að vera þeirra sem enduróma þær skoðanir sem heppilegastar þykja. Við eigum öll að hafa aðgang að púltinu og dálki í blöðunum – burtséð frá skoðunum, stétt og stöðu.

Kúgunartilburðir og ofríki eiga ekki heima í ríki sem kennir sig við lýðræði og frelsi.

Ég hef alltaf fylgst vel með pólutíkinni og ég man ekki eftir öðru eins ástandi eins og nú er uppi. Það var erfitt í kringum myntbreytinguna þegar núllunum var fækkað – en ástandið nú er öllu verra – því má helst líkja stöðuna eins og hún var eftir hrun. Það er því sannarlega þörf fyrir fólk á þing sem er tilbúið í alvöru breytingar almenningi til heilla. Við höfum hins vegar ekkert að gera með fólk sem ætlar að hjakka í sama farinu með skyndilausnum og smáskammtalækningum – fólk sem er svo kannski ekki í neinni tengingu við íslenskan veruleika.

Landsmenn þurfa að endurheimta gleðina – það lifir enginn á voninni einni saman til lengri tíma. Þó vonin sé oft bjargvættur þegar á móti blæs þá getur hún sannarlega orðið þreytandi förunautur – sér í lagi þegar upplifunin er sú að engin vilji sé til úrbóta hjá þeim sem vilja sníða allt og alla eftir sínum hentileika.

Það þarf að stefna að heilbrigði þjóðarinnar og uppræta pólutíska spillingu.

Jú, jú – spilling er staðreynd á Íslandi – hún er fylgifiskur auðlinda hér sem annars staðar.

Spillingin hampar þeim sem henni þjóna á kostnað þeirra sem hún útilokar og hrekur jafnvel út í sárustu neyð – upp úr neyðinni spretta svo vandamálin og sjúkdómarnir.

Í jarðveg spillingarinnar verður ekki sáð til framtíðar – því upp úr honum mun aldrei neitt vaxa annað en óréttlæti og mismunun.

Lifið heil !

Vilhelmína H. Guðmundsdóttir

Öryrki.

DEILA