Það er nú kannski að bera í bakkafullann lækinn að halda áfram umfjöllun um fund 1369 í sveitarstjórn Strandabyggðar sem haldinn var 8. október sl.
Eins og komið hefur fram í fyrri skrifum mínum á BB.is þá lögðu tveir fulltrúar T listans fram eftirfarandi bókun á fundi 1369 í Strandabyggð:
„Vegna hótana sem okkur hafa borist í kjölfar þessarar vantrauststillögu þá höfum við leitað meðal annars til lögfræðings sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna réttarstöðu okkar í því sambandi. Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa. Svona hegðun hefur mikil áhrif á okkar fjölskyldu og vini í ljósi þess í hversu litlu samfélagi við búum. Af þeim sökum mun ég Óskar Hafsteinn Halldórsson á næstu dögum biðjast lausnar undan mínum störfum í sveitarstjórn því ég get ekki tekið áhættuna á því hvernig verður komið fram við mína nánustu í framhaldi þess ef ég sit áfram í sveitarstjórn.”
Ekkert er sagt til um það í bókuninni né á fundinum sjálfum, hvers eðlis hótanirnar eru eða hver stóðu að baki þeim annað en að þær komi frá „baklandi“ A listans. Í kjölfarið situr fjöldi fólks sem telur sig til „baklands“ A listans undir því að hafa hótað kjörnum fulltrúum T listans!
Nú hefur reyndar komið á daginn að ekki var um hótanir í fleirtölu að ræða heldur staka hótun. Það þarf ekki að draga úr mögulegum alvarleika meintrar hótunar en dregur þó úr trúverðugleika bókunarinnar þar sem ekki er nákvæmar með staðreyndir farið. Það sveitarstjórnarfólk sem lagði umrædda bókun fram hefur staðfest með tölvupósti, m.a. til Jóns Jónssonar og fleiri aðila að nefnd hótun hafi ekki komið frá honum eða fjölskyldu hans. Þar er talað um hótun í eintölu en ekki fleirtölu. Þar sem um eina hótun er að ræða en ekki margar má gera að því skóna að um einn einstakling eða hótara sé að ræða en ekki marga eins og orðalagið „bakland A lista“ gefur til kynna. Það er vonandi að hér sé einungis um óvönduð vinnubrögð að ræða en ekki ásetning af hálfu sveitarstjórnarfulltrúanna.
Ég geri mér grein fyrir því að samskipti geta verið mjög krefjandi. Ég geri mér líka grein fyrir því að það er ekki á allra færi að takast á við krefjandi samskipti. Það er eitt ráð sem gott er að hafa í huga þegar kemur að samskiptum við annað fólk og til að auðvelda samskipti við annað fólk en það er að vera heiðarlegur. Það felur í sér að segja rétt og satt frá. Það þarf ekkert að vera minna alvarlegt að fá eina hótun frá einum einstaklingi en margar frá mörgum, fer allt eftir eðli að aðstæðum. Það skiptir samt máli að rétt sé sagt frá þannig að fjöldi fólks sé ekki ranglega ásakaður um eitthvað sem það hefur ekkert með að gera. Það er svo líka alvarlegt að ásaka fjölda fólks ranglega um eitthvað þegar ásakandinn veit betur.
Ég tel að það sé full ástæða til að ómerkja eða í það minnsta leiðrétta, bókun sveitarstjórnarfulltrúa T listans frá fundi 1369 á næsta fundi sveitarstjórnar enda komið fram að þar er ekki farið rétt með staðreyndir. Að minnsta kosti stangast á orðalag sjálfrar bókunarinnar (sem virðist hafa verið sett fram í flýti og uppnámi) og ígrundaðs vottorðs frá sömu sveitarstjórnarfulltrúum.
Þar sem nú þegar er búið að skrá frásögn um hótanir (hótun) í bækur sveitarfélagsins og leitað hefur verið á náðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og til lögmanns sveitarfélagsins til að skýra réttarstöðu sveitarstjórnarfulltrúanna tveggja, þá hlýtur að mega vænta þess að næstu skref varðandi mál þetta verði upplýst af hálfu sveitarstjórnar. Jafn opinberlega og greint var frá því að hótanir (hótun) hafi komið fram. Ekki þarf að brjóta neinn trúnað en það er mikilvægt að framvindan sé öllum ljós. Hver er niðurstaða Sambands Íslenskra sveitarélaga og lögmanns sveitarfélagsins um réttarstöðu sveitarstjórnarfulltrúanna? Verða afleiðingar? Verður kært til lögreglu? Verður málið látið niður falla og þá af hverju?
Með von um betri tíð,
Andrea K Jónsdóttir, athafnakona