Matvörur hækka í verði

Eftir tveggja mánaða lækkun á verðlagi matvöru hækkar það nú á ný.

Samkvæmt verðlagsmælingum ASÍ er hækkunin milli mánaðanna september og október um eitt prósent. Hækkunin er að mestu leyti vegna hækkunar á kjötvöru.

Þetta er fyrsti mánuðurinn frá því í mars þar sem verðlagseftirlitið mælir ekki lækkun verðlags í neinni verslun milli mánaða. 

Verðlagseftirlitið segir að verslanir Samkaupa – Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin og Iceland – hafa verið á miklu ferðalagi í verðlagningu síðan í sumar. Verð þar hækkaði verulega í júlí og lækkaði svo um munaði í ágúst, sem átti nokkurn þátt í sveiflum verðlagsvísitölu matvöru þá mánuði. 

Nettó-breytingin, ef svo má segja, er að röðun verslana á matvörumarkaði er nú önnur en áður. Nettó, sem áður var tíðum um 12% yfir lægsta verði, eða 11% hærra en Bónus, er nú 6,4% yfir lægsta verði að meðaltali – aðeins um 3% yfir Bónus. 

Kjörbúðin hefur einnig færst til og er nú að jafnaði ódýrari en Extra, öfugt við það sem áður var. Hins vegar hafa Iceland og Krambúðin tekið kipp og eru nú sjónarmun lengra frá lægsta verði en þær voru fyrir verðhækkanir og -lækkanir í sumar. 

Prís er enn ódýrasta matvöruverslunin sem verðlagseftirlitið skoðar reglulega, en verð þar er að meðaltali 0,8% hærra en þar sem það er lægst. Bónus er nú að meðaltali 3,42% yfir lægsta verði og Krónan 4,30%.

DEILA