Áhyggjur af áhrifum loðnubrests á efnahagslíf

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson. Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir.

Stjórn samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sendi frá sér í gær ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af mögulegum loðnubresti á íslenskt efnahagslíf.

Í ályktuninni segir:

„Ekki síst gætir áhrifanna hjá íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélögum þar sem uppsjávarvinnsla er ein af meginstoðum atvinnulífsins. Ef ekki verður loðnuvertíð á næsta ári verður það annað árið í röð sem tekjutap af þeim völdum dynur yfir þessi sveitarfélög og samfélagið allt hér á landi. Jafnframt mun það hafa mjög neikvæð áhrif á hagvöxt á næsta ári sem er grafalvarlegt. 

 Haustmælingar á loðnu gáfu þó vísbendingar um að hægt verði að gefa út upphafskvóta og því leggja Samtök sjávarútvegssveitarfélaga mikla áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að heimila þessar þjóðhagslega mikilvægu veiðar. Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf.“

Í nýlegri spá greiningardeildar Landsbankans segir að stór loðnuvertíð gæti þýtt að hagvöxtur yrði 0,5 – 1 prósenti meiri en ella, en spáð er 2,3% hagvexti á næsta ári án loðnuveiði. Þetta þýðir með öðrum orðum að hagvöxturinn yrði 20 – 40% meiri ef af loðnuveiðum verður. Það munar verulega um það.

Útflutningsverðmæti loðnuafurða var í nóvember 2022 orðið 46 milljarðar króna það ár og veiðin var 521 þúsund tonn samkvæmt því sem fram kemur á Radarnum, mælaborði sjávarútvegsins.

Útflutningsverðmæti eldislax hefur síðustu tvö ár verið um 40 milljarðar króna og mun vaxa hratt á næstu þremur árum. og jafnvel tvöfaldast.

Í samtökum sjávarútvegssveitarfélaga eru 27 sveitarfélög á landinu þar af eru fimm sveitarfélög á Vestfjörðum. Tveir af fimm kjörnum stjórnarmönnum eru frá Vestfjörðum.

DEILA