Strandabyggð er ekki treystandi

Í byrjun júlí á þessu ári gerði ég samkomulag við Strandabyggð um að KPMG gerði rannsókn á sjálfum mér. Ætlunin var að sanna í eitt skipti fyrir öll, að engin innistæða væri fyrir ásökunum Þorgeirs Pálssonar oddvita og sveitarstjóra og konu hans sem einnig er starfsmaður Strandabyggðar, um meinta sjálftöku mína á fjármunum úr sveitarsjóði. Nákvæm upphæð sem nefnd var í þessum ásökunum er rúm 61 milljón.

Það var dálítið ströggl að komast að samkomulagi um orðalag rannsókninnar. Það var mér mikið kappsmál að það væri ég sjálfur sem væri til rannsóknar og meint sjálftaka mín á þeim tíma sem ég sat í sveitarstjórn. Það náðist þó saman að lokum með milligöngu lögfræðings Strandabyggðar. Samkomulagið var bókað í fundargerð og sent KPMG sem verklýsing.

Kóngur einn dag

Niðurstaða KPMG kom svo í lok september, á lokadegi þess frests sem gefinn var. Hún var mér mjög hagstæð. Engin merki voru um sjálftöku, eða að ég hefði gerst sekur um brot á sveitarstjórnarlögum, samþykktum eða siðareglum Strandabyggðar á þeim tíma sem ég sat í sveitarstjórn. Þvert á móti hafði ég ávallt gætt þess að víkja þegar málefni tengd sjálfum mér og stuðningi við menningarstofnanir sem ég hafði komið á laggirnar forðum daga ásamt góðu fólki voru til umfjöllunar. Þetta gladdi mig mjög, fjölskyldu og vini og marga aðra sem standa mér nærri eða höfðu áttað sig á hvílíkt dómadags rugl þessar ásakanir væru.  

Þó ég væri ánægður með niðurstöðuna var ég aðeins hugsi yfir skýrslunni sjálfri. Þar var á köflum eins og það væri ekki ég sjálfur sem væri til rannsóknar, heldur sjálfseignarstofnanirnar Strandagaldur og Sauðfjársetrið. Farið var nákvæmlega yfir allan stuðning og þjónustusamninga sveitarfélagsins við þessar menningarstofnanir og virtist þá engu skipta hvort eða hvenær ég hefði verið þar í stjórn. Jafnvel var fjallað um stuðning á tímabilum þar sem ég var hvorki í stjórn þeirra, né í sveitarstjórn. Eins var í skýrslunni skringileg setning um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem vakti furðu mína.

Ég óskaði því eftir, með tilvísun í upplýsingalög, öllum gögnum sem varða mig í stjórnsýslu Strandabyggðar, bæði frá sveitarfélaginu og sveitarstjórnarfólki. Þar er jafnt átt við tölvupósta, minnisblöð, lögfræðiálit og allt annað sem sent hefur verið manna á milli frá 1. júní síðastliðnum.

Óeðlileg afskipti

Í þeim gögnum sem ég hef þegar fengið afhent, kom strax í ljós að Þorgeir Pálsson oddviti hafði afskipti af rannsókn KPMG á meðan á henni stóð. Þetta gerði hann þó hann væri fullkomlega vanhæfur til að fjalla um málið og hefði vikið af fundi þar sem rannsóknin var samþykkt. Þorgeir sendi KMPG þannig frekari fyrirmæli um hvað ætti að rannsaka og undirritaði póstinn sem oddviti og sveitarstjóri Strandabyggðar. Sveitarstjórnin fékk öll afrit af þessum pósti. Líklega hefur markmið Þorgeirs í og með verið að leggja sínu fólki línur um hvaða orðræðu hann vildi sjá eftir að skýrslan kæmi út.

Ég veit ekki hvort Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir varaoddviti brást við þessum óeðlilegu afskiptum og broti á því samkomulagi sem gert hafði verið með einhverjum hætti. Hún var verkstjóri í þessu máli fyrir hönd sveitarfélagsins og hefði átt að gera það. Ég hef ekki enn fengið umbeðin gögn frá henni og veit því ekki hvort hún hefur mótmælt þessum afskiptum. Að minnsta kosti ætti hún að hafa sent KPMG skeyti og beðið þá að taka ekki mark á Þorgeiri og halda sig við upprunalega verklýsingu.

Appelsínugul viðvörun

Eftir stendur að oddvitinn braut með ófyrirleitnum hætti það samkomulag sem gert hafði verið. Markmið hans virðist hafa verið að tryggja að í skýrslunni yrði fíkjublað sem hann gæti skýlt sér á bak við, þegar í ljós kæmi að engin innistæða væri fyrir ásökunum þeirra oddvitahjóna um sjálftöku. Hann gæti þá reynt að beina athyglinni að stuðningi sveitarfélagsins við Strandagaldur og Sauðfjársetrið. Látið eins og málið hafi aldrei snúist um ósannar ásakanir þeirra hjóna um sjálftöku, sem þau eru nú reyndar síðan bæði búin að ítreka eftir að skýrslan kom út.

Auðvitað er líka hugsanlegt að Þorgeir hafi ekki einu sinni áttað sig á því sjálfur að hann væri að svíkja samkomulag sem gert var. Margvísleg dæmi eru um að hann virðist ekki skilja almennilega hvað felst í vönduðum vinnubrögðum og góðri stjórnsýslu.

Lærdómurinn sem draga má af þessu máli er alla vega augljós. Sveitarfélaginu Strandabyggð er ekki treystandi. Alla vega ekki á meðan Þorgeir Pálsson og bandalagið hans halda um stjórnartauma. Eins og staðan er núna virðist meirihluta sveitarstjórnar Strandabyggðar finnast sjálfsagt og eðlilegt að oddvitinn ljúgi upp á fólk, svíki samninga, komi sér undan ábyrgð og kenni öðrum um allt sem aflaga fer. Styðji bara og verji slíka hegðun, í einhverri undarlegri meðvirkni. Þetta þarf ekki að vera svona.  

Jón Jónsson, þjóðfræðingur á Kirkjubóli

DEILA