Allt eru þetta mannanna verk

Horft af nýja veginum við Hallsteinsnes og yfir á Skálanes.

Hörðustu átök varðandi samgöngumál, sem undirritaður tók þátt í á löngum þingmannsferli, snerust um vegagerð í Gufudalssveitinni. Mikill samhljómur var á meðal lang flestra Vestfirðinga um legu vegarins en einnig birtist okkur þaul skipulögð og vel fjármögnuð andstaða, einkum utan Vestfjarða. Þrátt fyrir það virtist okkur sem börðumst fyrir þessu máli, að það væri í höfn, þegar þáverandi umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, staðfesti skipulag vegarins. Var þar gert ráð fyrir þverun Þorskafjarðar, vegagerð út að Hallsteinsnesi og þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Þetta var í ársbyrjun 2007, sum sé fyrir nær 18 árum.

Margt fer öðruvísi en ætlað var

En margt fer öðruvísi en ætlað var.

Úrskurður ráðherrans var kærður og fór fyrir tvö dómstig, þar sem hann var ógiltur, á mismunandi forsendum þó, í hvoru dómstiginu fyrir sig. Í úrskurði Hæstaréttar  frá 22. október 2009 fólst m.a að  “umhverfisráðherra hefði verið óheimilt að lögum að taka tillit til umferðaröryggis við mat á umhverfisáhrifum í úrskurði sínum.”

Þó mörgum þætti þessi dómsforsenda með nokkrum ólíkindum, gilti hið fornkveðna; ekki þýðir að deila við dómarann. Vandinn í málinu var hins vegar sá að innan þáverandi ríkisstjórnarflokka voru skoðanir skiptar. Sannarlega voru þar  innanborðs þingmenn sem studdu dyggilega sjónarmið sveitarfélaganna á Vestfjörðum um að fara þá leið sem lagt hafi verið upp með, sem sagt með láglendisleið. En það var einnig fyrir hendi veruleg andstaða í hópi þáverandi stjórnarliða, sem vildu frekar leggja vegi yfir hálsana, sem vitaskuld var miklu verri og óöruggari leið. Þetta olli því að fátt gerðist á kjörtímabilinu 2009 til 2013.

Málin komast á hreyfingu að nýju

Strax við upphaf nýs kjörtímabils, árið 2013 hafði undirritaður frumkvæði að fundi með þáverandi samgönguráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og þáverandi umhverfisráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni, um hvernig mætti tryggja vegagerð í Gufudalssveitinni með láglendisvegi, líkt og upphaflega hafði verið stefnt að. Báðir ráðherrarnir voru eindregin í  þeim vilja sínum að þoka málinu áfram og eftir gott samráð við heimamenn og lögfræðilega athugun var það niðurstaðan að hefja leikinn að nýju. Leggja fram tillögu að vegstæði líkt og hafði verið gert árið 2007, en með breytingum þó, þar sem tillit væri tekið til athugasemda.

Þetta var farsæl leið þó að sönnu hafi hún reynst tafsöm. Þann 25. febrúar 2020 veitti sveitarstjórn Reykhólahrepps framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðavegi frá Skálanesi að Bjarkarlundi. En ekki voru allir að baki dottnir. Enn hófst kæruferli fyrir Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Nefndin hafnaði kærunni með ítarlegum og vel rökstuddum úrskurði 1. október 2020 og var því hægt að hefjast handa við loka undirbúning framkvæmda á þessari umtöluðu leið miðað við þær forsendur sem þá höfðu teiknast upp. Þá voru liðin nær 14 ár frá því að upphaflegur úrskurður þáverandi umhverfisráðherra var upp kveðinn og sem við töldum mörg að væri hið græna ljós á framkvæmdir í Gufudalssveitinni.

Enn er allt í logandi óvissu

Þegar öll þessi sorgarsaga er rakin er það þyngra en tárum taki að verða vitni að því að enn er allt í logandi óvissu um hvenær vegagerðinni í Gufudalssveit verði lokið. Í gildandi Samgönguáætlun ( 2019 – 2024 ) er gert ráð fyrir 7,2 milljörðum til þessa verkefnis og kemur hvergi annað fram í þingskjölum en að þessi uphæð nægi til þess að ljúka því á gildistíma áætlunarinnar. Í tillögunni sjálfri var gert ráð fyrir að lokaupphæð til verkefnisins væri árið 2023 og það samþykkti Alþingi, án nokkurrar fyrirstöðu.

Þó skal á það minnt að í nefndaráliti við Samgönguáætlunina segir að meiri hlutinn leggi áherslu á að framkvæmdum verði flýtt ef svigrúm skapast. Í nefndarálitinu frá árinu 2020 segir nefnilega: “Meiri hlutinn leggur áherslu á að þeir stofnvegir sem enn hafa ekki fengið bundið slitlag njóti forgangs í framkvæmdum. Með því er umferðaröryggi bætt, leiðir gerðar greiðfærari og byggðir betur tengdar saman. Þeir eru flestir á samgönguáætlun en meiri hlutinn leggur áherslu á að framkvæmdum verði flýtt ef svigrúm skapast. Um er að ræða Vestfjarðaveg um Gufudalssveit, Dýrafjarðargöng og Dynjandisheiði, Bíldudalsveg að flugvelli, Skógarstrandarveg, Borgarfjarðarveg eystri, Hlíðarveg á Héraði, Brekknaheiði, Innstrandaveg og Bárðardalsveg.”

Hvergi var minnst á frekari tafir

Þarna er tónninn sleginn skýr og tær. Hvergi er imprað á nokkrum töfum, heldur þvert á móti. Það er hvatt til flýtingar tiltekinna framkvæmda skapist til þess svigrúm. Þar á meðal eru framkvæmdir í Gufudalssveitinni.

Þegar öll þessi sorglega forsaga er skoðuð, þegar fyrir liggur skýr vilji meirihluti viðeigandi þingnefndar að leita færis um flýtingu framkvæmda í Gufudalssveitinni, þegar hvergi nokkurs staðar er minnst á mögulegar tafir framkvæmda  á svæðinu verður málið allt hið dularfyllsta. Þó má segja að í þeim undantekningartilvikum sem þessi mál hafa borið á góma í opinberri umræðu hafi verið tilefni til bjartsýni. Þannig sagði talsmaður Vegagerðarinnar í viðtali hér á BB, 7. mars sl  að stefnt sé að því að bjóða út síðasta áfanga Gufudalssveitar í haust. Er það um byggingu tveggja brúa að ræða. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem nýlega var haldið er verkið áætlað kosta 3.500 m.krónur, að sögn fulltrúa Vegagerðarinnar

Enginn veit hvenær þessu verki verður lokið

Á hinn bóginn verður því miður ekki hægt að segja að viðbrögð innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir hafi gefið tilefni til bjartsýni þegar hún svaraði fyrirspurn Teits Björns Einarssonar alþingismanns á Alþingi 7. október sl. Í svari ráðherrans kom nefnilega ekkert það fram sem varpað gæti ljósi á frekari framvindu verksins.

Allt er þetta mál hið sorglegasta. En nú gildir hið fornkveðna úr ranni Ólafar ríku: ”Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði ….” ( og nú kýs ég fyrir friðsemdar sakir að sleppa síðustu orðunum úr þessari frægu tilvitnun ! )

Úr því sem komið er má ljóst vera að þetta brýna verkefni, sem við töldum að væri á beinu brautinni fyrir hérumbil 20 árum, er enn umvafið fullkominni óvissu. Við vitum auðvitað að verkinu mun ekki ljúka á þessu ári. Það er á  þeim tíma sem fyrirheit voru gefin um í Samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024 og langtímaáætlun Samgönguáætlunar árið 2020 til 2034 og Alþingi samþykkti. Og svo vitum við að því muni heldur ekki ljúka á næsta ári, eða yfirhöfuð um hvenær verkinu muni ljúka.

Með öðrum orðum: Nú undir árslok 2024 veit ekki nokkur maður hvenær þessu verki muni verða lokið.

Tafarlaust útboð er sjálfsögð krafa

En við skulum ekki dvelja frekar við fortíðina í þessu máli, heldur einfaldlega gera þá sjálfsögðu kröfu að tafarlaust verði ráðist í útboð og tryggt að verkið verði unnið svo hratt sem verða má, þannig að ljúka megi þessu dæmalausa máli, án frekari skammar fyrir þá sem hlut eiga að máli.

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrrverandi þingmaður Vestfjarða og Norðvesturkjöræmis.

DEILA