Björn Bjarki: þurfum að nýta virkjunarkosti á Vestfjörðum

Björn Bjarki Þorsteinsson.

Björn Bjarki Þorsteinsson, sem skipar 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins var inntur eftir afstöðu sinni til Hvalárvirkjunar og hugmynda Orkubús Vestfjarða um virkjun í Vatnsdalnum í Vatnsfirði.

„Að mínu mati er ljóst að það vantar meiri orku inn á Vestfjarðarlínu og eins að bæta afhendingaröryggi á rafmagni, það verður samfélagið á Vestfjörðum og eins við í nágrenninu of oft vör við. Núverandi Vestfjarðarlína er úr sér gengin eins og bent hefur verið á og óásættanlegt að verið sé að brenna díselolíu á varaaflstöðvum þegar rafmagnslaust verður eða rafmagn skortir. Við þurfum að nýta þá virkjunarkosti sem til staðar eru og rétt að benda á í því tilliti á að Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki. Stutta svarið mitt ef svo má segja er að ég tel að við þurfum að nýta fleiri möguleika til þess fjölga grænum orkukostum bæði á Vestfjörðum og annars staðar í kjördæminu okkar til að styrkja innviði því það er innviða brestur í orkumálum líkt og öðrum grunn innviðum s.s. eins og í vegamálum eins og mér hefur orðið tíðrætt um á síðustu misserum.“

 

Laxeldið mikilvægt – en frjór lax bannaður innan 10 ára

Björn Bjarki var einnig spurður um afstöðu sína til laxeldisins á Vestfjörðun. Spurt var: Styður þú laxeldið eða tekur þú undir með þeim sem vilja stöðva eldið og jafnvel banna það?

„Hvað laxeldið varðar þá þurfum við að útbúa leikreglur allar þannig að sú starfsemi sem til staðar er sé gert kleift að starfa áfram því þessi atvinnuvegur er gríðarlega mikilvægur, ekki síst í Norðvesturkjördæmi. Mikilvægt er að hugað sé að því, eins og ég vísa til þegar ég nefni leikreglur, að þessi atvinnugrein sé í sátt við laxveiðiárnar okkar dýrmætu í kjördæminu og um land allt. Mikilvægt er að klára frumvarp varðandi lagareldi því við verðum að koma á heildstæðri löggjöf um atvinnugreinina. Fram eru komnar umsagnir um frumvarpið, bæði frá veiðifélögum einstakra svæða og sveitarfélögum svo dæmi séu tekin, sem vert er að skoða vel og taka með í umræðuna á næstunni. Einnig vil ég nefna að það er mikilvægt að fá þá rekstraraðila sem í greininni starfa, laxeldinu, að borði þegar kemur að rannsóknum og þ.h. á áhrif þessa á náttúruna okkar, bæði í nærumhverfi laxeldisstöðvanna sem og á verndarsvæði laxveiðiánna.“

Spurningunni var fylgt eftir með annarri: Varðandi laxeldið nefnir þú að leikreglurnar verði í sátt við laxveiðiárnar. Nú er krafan frá veiðifélögunum að laxeldið verði bannað. Hvernig sérðu fyrir þér að leikreglurnar verði sem verða í sátt við veiðifélögin?

Í svari sínu vísaði Björn Bjarki til umsagnar frá Húnaþingi vestra um nýtt lagareldisfrumvarp á síðastliðnum vetri. Þar væru nefnd atriði sem taka mætti til hliðsjónar. Í umsögninni eru nefnd þrjú atriði:

Rekstrarleyfi í laxeldinu verði ekki ótímabundin eins og frv. gerir ráð fyrir. Eðlilegt er að leyfi sem þessi séu gefin út til ákveðins árafjölda í senn. Við endurnýjun leyfis þurfi lagareldisfyrirtæki að fara í gegnum leyfisveitingaferlið að nýju sem gefur tækifæri til grandskoðunar á starfseminni sem að mati byggðaráðs Húnaþings vestra er nauðsynlegt til að auka líkur á að markmið frumvarpsins náist.

Rekstrarleyfishafi skuli greiða veiðifélögum/veiðiréttarhöfum þann kostnað sem til fellur við leit/veiðar á strokulaxi.

Sett verði ákvæði í frumvarpið þess efnis að innan 10 ára verði óheimilt með öllu að rækta frjóan lax. Með því megi minnka til muna þá áhættu sem af eldinu stafar gagnvart villta laxastofninum.

DEILA