Lýðræðisflokkurinn sem stofnaður var af forsetaframbjóðandanum Arnari Þór Jónssyni kynnti í morgun þrjá efstu menn á lista flokksins í hverju kjördæmi fyrir sig ásamt nokkrum af stefnumálum sínum.
Í Norðvesturkjördæmi er Eldur Smári Kristinsson, formaður Samtakanna 22 í fyrsta sæti, í öðru sæti er Ágústa Árnadóttir snyrtifræðingur og þriðja sætið Sigurður Bjarnason kerfisfræðingur.
Í tilkynningu frá Lýðræðisflokknum segir að hann hafi verið stofnaður með það markmið að auka einstaklingsfrelsi og draga úr miðstýringu ríkisvaldsins.
Flokkurinn leggi áherslu á að tryggja borgurum rétt til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um eigið líf, sér í lagi á sviðum efnahags, atvinnumála og menningar. Þá vilji flokkurinn einnig hófsemi í ríkisútgjöldum og vilji að skattalækkanir verði til þess að efla atvinnufrelsi og skapa ný tækifæri í íslensku efnahagslífi segir í tilkynningu frá framboðinu.