Cruise Iceland: mótmælir fyrirhuguðu innviðagjaldi á skemmtiferðaskip

Cruise Iceland eru samtök 25 hafna og 11 þjónustufyrirtækja á landinu. Meðal þeirra eru Ísafjarðarhafnir, Vesturbyggð og Vesturferðir. Samtökin hafa sent Fjármála- og efnahagsráðuneytinu harðorð bréf þar sme mótmælt er áformum tengdum fjárlögum næsta árs að taka upp sérstakan skatt um áramótin, innviðagjald 2500 kr.á hvern farþega á skemmtiferðaskipi fyrir hvern byrjunardag sem skip dvelur við Ísland.

Segir í bréfinu að innviðagjaldið verði verður sértæk skattlagning á farþegaflutninga til landsins sem aðrir mátar farþegaflutninga til og frá Íslandi verða undanskildir.
„Upphæðin er fimm sinnum hærri en gistináttaskatturinn sem er aflagður og er einnig án nokkurra fordæma á heimsvísu hjá öðrum þjóðum fyrir hverjar 24 stundir sem skip er innan efnahagslögsögu.“

Innviðagjaldið mismuni félögum í ferðaþjónustu með þeim hætti að aðeins farþegar skemmtiferðaskipa verða látnir greiða innviðagjald. Þannig verði gjaldið ekki lagt á þá ferðamenn sem koma fljúgandi til landsins, gilsti á höfuðborgarsvæðinu og ferðist með bílum eða rútum innanlands á ýmsa ferðamannastaði og fljúgi svo aftur út.

Samtökin segja að verði innviðagjaldið lagt á með þessum hætti muni það líklega hafa miklar afleiðingar
fyrir starfsemi skemmtiferðaskipa við Ísland. Þetta skapi sérstaka áhættu fyrir minni samfélög á landsbyggðinni sem reiða sig að miklu leyti á tekjur frá skemmtiferðaskipum og sé í raun landsbyggðarskattur.

Íslenskar rannsóknir sýni að farþegar skemmtiferðaskipa skapa miklar tekjur fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni án þess að valda umtalsverðu álagi á innviði. Hótelnætur, millilandaflug, eldsneytiskaup, flutningar, matarkaup og önnur þjónusta sem er keypt dreifist víða um landið og sérstaklega í
byggðalögum utan alfaraleiðar þar sem margir rekstraraðilar reiða sig alfarið á tekjur af skemmtiferðaskipum.

Heildarfarþegafjöldi þeirra sem koma til Íslands í tengslum við skemmtiferðaskip hafi verið 315 þúsund talsins á síðasta ári, sem geri um 12-14% af öllum farþegum sem til Íslands koma. Siglt er með þessa ferðamenn hringinn í kringum landið og því séu innviðir landsins takmarkað nýttir af skipunum.

Cruise Icland segir að ekkert bendi til þess að aðgerðin muni hafa jákvæð áhrif á íslenska ferðaþjónustu eða íslenskan efnahag, þvert á móti muni áhrifin verða neikvæð þar sem hætt er við að skemmtiferðaskipin muni stytta dvöl sína innan íslenskrar lögsögu eða jafnvel hætta við að koma.

DEILA